Hungursneið ríkir nú á hlutum Gaza-strandar, og er yfirvofandi víðar. Þetta staðfesti framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Bandaríkjanna, Samantha Power, í gær. Fram til þessa hafa bandarískir embættismenn og hjálparstofnanir varað við því að hungursneið væri yfirvofandi á svæðinu en þetta er í fyrsta skipti fulltrúi bandarískra stjórnvalda staðfestir að svo sé þegar orðið.
Talið er líklegt að yfirlýsing Power muni setja frekari þrýsting á Bandaríkjastjórn um að hemja hernaðarstuðning við Ísrael. Æðstu embættismenn Bandaríkjanna, og þar á meðal Joe Biden forseti, hafa sagt ísraelskum kollegum sínum að þeir verði að gera betur þegar kemur að hinni skelfilegu stöðu mannúðarmála á Gaza, ellegar eiga á hættu að missa stuðning Bandaríkjanna.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, sagði á þriðjudag að Ísraelar hefður skuldbundið sig til að auka verulega við mannúðaraðstoða á Gaza-ströndinni og hefðu hafið aðgerðir í þá veru. Það sem skipti hins vegar máli væru alvöru, varanlegar aðgerðir í þeim efnum og myndi Bandaríkjastjórn fylgjast mjög náið með framvindu mála næstu daga.
„Það er svo, já,“
Samantha Power. framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Bandaríkjanna, um að hungursneið sé þegar ríkjandi á Gaza
Á þingnefndarfundi síðastliðinn miðvikudag spurði þingmaður Demókrataflokksins, Joaquin Castro, Power út í frétt HuffPost um skeyti Þróunarsamvinnustofnunarinnar, þar sem varað var við því að hungursneið væri líklega þegar orðin að veruleika á Gaza. Spurði Castro hvort að líkur væru á að hlutar Gazastrandar, einkum norðurhlutinn, liðu nú þegar hungursneið. „Það er svo, já,“ svaraði Power.
Hún bætti við að vannærð börn á norðurhluta Gaza væru nú eitt af hverjum þremur börnum. Matvælaaðstoð bærist ekki í nægilegu magni til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi hungursneið í suðurhlutanum og börn væru nú þegar dáin og deyjandi í norðurhlutanum.