Svo virðist sem Bankasýsla ríkisins hafi engan sérstakan áhuga á því að fá sem best verð fyrir fyrirtækið TM, sem Landsbankinn keypti nýverið. Bankasýsla ríkisins ákvað á fundi í fyrradag að skipta öllu bankaráði Landsbankans út og selja fyrirtækið aftur. Í stað þess að reyna að draga sem mest úr meintum skaða og selja fyrirtækið jafnvel ekki með of miklu tapi, þá verður fyrirtækið sett á brunaútsölu.
Í það minnsta er það í grófum dráttum það sem Bankasýslan leggur til í bréfi til í bréfi til Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þar lýsir Bankasýslan hugmyndum sínum um fyrirhugaða sölu á TM. Sú lýsing minnir helst á auglýsingu á Bland.is, á hlut sem þarf að fara í hvelli, kannski vegna flutninga.
Efnislega segir Bankasýslan að fyrirtækið „þurfi að fara strax, öll tilboð skoðuð“, líkt og í svo mörgum auglýsingum. Oft enda slíkar auglýsingar á því að hluturinn fæst gefins ef einhver sækir hann. Er hér þó um að ræða fyrirtæki sem bankinn keypti fyrir örfáum vikum fyrir litlar 28,6 milljarða króna. Nú stuttu síðar eru allar leiðir skoðaðar til að losna við það. Í bréfinu, sem Tryggvi Pálsson formaður, undirritar, segir:
„Bankasýsla ríkisins telur að bankaráð Landsbankans gæti t. d. litið til sölu á TM til þriðja aðila, frumútboðs á hlutum í félaginu, útgreiðslu hluta til eigenda eða endurskipulagningar starfsþátta innan samsteypu bankans og TM.“