Fimmtán lík til viðbótar fundust í og við al-Shifa sjúkrahúsið á Gazaströnd í gær. Ísraelski herinn dró sig frá sjúkrahúsinu fyrir um hálfum mánuði, eftir að hafa setið um það og gert linnulausar árásir svo vikum skipti. Tvær fjöldagrafir hafa fundist á Gaza síðustu daga.
Heilbrigðisstarfsfólk og almennir borgarar hafa leitað og grafið eftir ástvinum sínum á svæðinu. Palestínumenn segja að Ísraelsher hafi myrt hundruði Palestínumanna á spítalasvæðinu og skilið lík þeirra eftir þegar herinn dró sig í burtu. Hundruð líka hafa fundist frá því munu hafa fundist á svæðinu í kringum spítalann að því er yfirvöld á Gaza herma.
Í síðustu viku fannst fjöldagröf við spítalann, önnur tveggja sem fundist hafa á Gaza síðustu daga, en hin fannst í borginni Beit Lahiya. Fréttamaður Al Jazeera sem var á staðnum þegar fjöldagröfin við al-Shifa sjúkrahúsið fannst lýsti því að níu lík hefðu fundist í gröfinni áður en heilbrigðisstarfsmenn hefðu hætt uppgreftrinum af ótta við að verða að skotmörkum ísraelskra dróna sem svifu yfir svæðinu.
Líkin sem fundust í fjöldagröfinni voru ekki rotnuð að fullu og bendir það til að stutt sé síðan fólkið var myrt. Sumt fólkið virðist augljóslega hafa verið sjúklingar á sjúkrahúsinu en það var með sáraumbúðir og æðaleggi fasta við sig. Ættingjar hafa borið kennsl á einhver líkanna og hafa staðfest að sumt fólkið hafi verið sjúklingar á sjúkrahúsinu.
Læknar og hjúkrunarlið hefur lýst því að fólk hafi verið myrt utan við aðalinngang sjúkahússins, þau hafi orðið vitni að því, sem og að fólk hafi verið grafið.
Í Beit Lahiya á norðurhluta Gazastrandar fannst þá fjöldagröf með tuttugu líkum. Íbúar á svæðinu segja að líkin séu öll af fjölskyldumeðlimum Al-Assaf fjölskyldunnar, sem ísraelskir hermenn hafi myrt fyrir um fjórum mánuðum síðan.