Guðni Th. Jóhannesson forseti var spurður um fjölda meðmælenda sem safna þarf vegna framboðs til forseta á stuttum blaðamannafundi milli ríkisráðsfunda. Tilefnið er gagnrýni sem hefur komið fram á að safna þurfi 1500 meðmælendum að lágmarki en 3000 að hámarki, sama fjölda og sett var í stjórnarskrá 1944 þegar landsmenn voru færri en nú. Í tillögum Katrínar Jakobsdóttur fyrrum forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá var gert ráð fyrir að forsetaefni skuli hafa meðmæli minnst 2,5% kosningarbærra manna og mest 5%. Ætla má að þetta væru í dag um 6.800 manns að lágmarki, 13.600 manns að hámarki.
„Ég tel það ekki rétt af manni í minni stöðu á þessum tímapunkti að segja af eða á um hvort fjölga skuli meðmælendum eða ekki,“ svaraði Guðni. „Ég get bent á hið sjálfsagða að þetta er sama tala og var við lýðveldisstofnun þegar íbúar landsins og kjósendur voru nokkuð færri.“
„Við getum horft út fyrir landsteinanna,“ bætti hann svo við. „Ákvæði um meðmælendur má finna í flestum ef ekki öllum lýðræðisríkjum þar sem við kjósum okkur þjóðhöfðingja. Tökum eyríkið Kýpur. Þar þarf 500 meðmælendur og er þjóðin þó fjölmennari þar. Oft liggur þetta á bilinu 0,5-1,0% kjósenda. Þannig að ef okkur auðnast að taka stjórnarskrá lýðveldisins og þjóðhöfðingjakaflann sérstaklega til gagngerar endurskoðunar þá hygg ég nú að þetta verði skoðað ítarlega.“
„Auðvitað er það svo líka að við höfum skapað þá stöðu núna með því að safna má meðmælum stafrænt að fólk getur skráð sig,“ hélt Guðni áfram, „og ég myndi gera greinarmun á því að vera skráður á Ísland.is og vera í framboði til forseta. Við skulum sjá hver staðan er í apríllok. Og eftir það vitum við kannski meira um hvað okkur finnst um fjölda meðmælenda og kröfur í þeim efnum.“
Guðni tók því alls ekki undir gagnrýni um að of fáa meðmælendur þyrfti til að stofna til framboð, tók dæmi af fjölmennari löndum þar sem þarf færri meðmælendur og að víða þyrftu meðmælendur að vera um 0,5-1,0% af kjörskrá. Ætla má að kröfurnar í dag á Íslandi jafngildi um 0,55% af kjörskrá að lágmarki og 1,1% að hámarki.
Í umsögnum um frumvarp Katrínar var fjölgun meðmælenda gagnrýnd af mörgum. Lýðræðisfélagið Alda taldi t.d. að þetta er varhugaverð breyting sem hafi engan sérstakan lýðræðislegan ábata í för með sér og mæltist félagið til að fallið yrði frá þessari breytingu og að ekki yrði gerð eins íþyngjandi krafa um undirskriftir.