Hrikalegar afleiðingar stríðsins fyrir börn á Gaza – Eitt af hverjum fimmtíu látið eða sært

Um 26 þúsund börn hafa látist eða særst síðan árársarstríð Ísraela á Gaza hófst fyrir hálfu ári. Það jafngildir því að eitt af hverjum fimmtíu börnum á Gaza sé látið eða hafi særst, í heild er hlutfallið eilítið hærra en tvö prósent. 

Þetta kemur fram í tölum hjálparasamtakanna Save the Children. Í árásum Hamas-hreyfingarinnar á Ísrael 7. október síðastliðinn voru 33 börn myrt. Síðan þá hafa 13.800 börn verið myrt á Gaza og ríflega 12.000 hafa særst og slasast. Á sama tíma hafa Ísraelar drepið 113 börn á Vesturbakkanum og sært að minnsta kosti 725 börn. Tölurnar er komnar frá Samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum og frá heilbrigðisráðuneytinu á Gaza. UNICEF hefur þá greint frá því að aflima hafi þurft annan eða báða fætur að minnsta kosti eitt þúsund barna.

Algjört niðurbrot heilbrigðiskerfis

Ísraelar hafa ráðist með sprengjuregni á um 30 af 36 sjúkrahúsum á Gaza. Af þeim eru 26 ónýtir og óstarfhæfir en 10 eru starfhæf að hluta. Flest þeirra eru þó mjög löskuð og öll stærstu og mikilvirkustu sjúkrahúsin eru illa farin eða óstarfhæf. Ísraelsher hefur gert árásir á sjúkrabíla, heilbrigðisstarfsfólk og komið í veg fyrir að hægt sé að veita heilbrigðisþjónustu til 1,1 milljóna barna sem á henni þurfa að halda.

Börn njóta engrar menntunar

Þá hefur Ísraelsher eyðilagt eða skemmt verulega 80 prósent allra skóla á Gaza. Tíu prósent skólahúsnæðis hafa þá algjörlega verið jöfnuð við jörðu. Það sem eftir stendur af skólahúsnæði er nýtt sem skjól yrir fólk á flótta. Afleiðingin er að um 625 þúsund börn á Gaza geta ekki gengið í skóla og hafa ekki getað notið neinnar formlegrar menntunar í að verða hálft ár. Að minnsta kosti 261 kennari hefur verið drepinn. Ljóst er að árásarstríðið mun hafa langvarandi áhrif á menntun barna á Gaza-ströndinni, jafnvel þó stríðið taki enda. 

Þá er vitað að minnsta kosti 460 börn hafa verið hneppt í hald Ísraela. Sum þeirra hafa, eftir að hafa verið sleppt úr haldi, lýst ómannúðlegri meðferð sem þau voru beitt á meðan á fangelsisvistinni stóð. 

Yfir 290 þúsund heimili hafa verið eyðilögð eða skemmd mikið, sem jafngildir 70 prósent allra heimila á Gaza. Yfir þrír fjórðu allra Gazabúa eru á flótta og hinir millir steins og sleggju.

Hungur ríkir

Ísraelsher hefur komið í veg fyrir, og tafið, flutning hjálpargagna inn á Gaza. Þá hafa ísraelskar hersveitir ítrekað ráðist á bílalestir sem flytja matarsendingar inn á svæðið, myrt almenna borgara sem ekkert hafa til saka unnið annað en að reyna að verða sér úti um nauðþurftir, og ráðist með skipulegum hætti á hjálparstarfsfólk, síðast í þessari viku. Helmingur Palestínumanna hið minnsta býr við hungur og allur norðurhluti Gaza-strandar er á brún hungursneiðar. 

Börnin sjá enga framtíð

Save the Children hafa varað við því að sálrænar afleiðingar linnulausrar skothríðar og sprengjuregns, þess að hafa misst nákomna ættingja og vini og jafnvel að hafa horft upp á þá deyja, auk þess sem börn svelti nú heilu hungri og njóti engrar læknisþjónustu, séu ógnvænlegar. Fjölmörg dæmi eru um að börn hafi lýst því við foreldra sína og við hjálparstarfsfólk að þau vilji ekki lifa lengur, þau sjái enga framtíð. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí