Ísraelsk stjórnvöld tilkynntu í gærkvöldi að þau myndu opna tímabundið fyrir sendingar hjálpargagna inn á norðanverða Gaza-ströndinga. Í tilkynningu frá skrifstofu Benjamins Netanyahu forsætisráðherra segir að það sé nauðsynlegt til að hægt verði að halda stríðsrekstrinum áfram.
Í tilkynningunni segir að flutningurinn verði heimilaður í gegnum landamærastöðina Erez og í gegnum hafnarborgina Ashdod. Þá verður einnig opnað fyrir flutning í gegnum landamærastöðina Kerem Shalom. Með því verði komið í veg fyrir mannúðarkrísu á svæðinu en það sé nauðsynlegt til að Ísraelar geti náð markmiðum sínum í stríðinu.
Þrýstingur á Ísraelsstjórn hefur farið æ vaxandi upp á síðkastið. Þannig setti Joe Biden Netanyahu úrslitakosti í gærkvöldi um að annað hvort tryggðu Ísraelar vernd almennra borgara ellegar að Bandaríkin myndu draga mjög úr hernaðarstuðningi sínum við þá. Hann krafðist þess að vopnahlé tæki tafarlaust gildi og hjálpargögnum yrði hleypt inn á Gaza nú þegar. Hins vegar var ítrekað að Bandaríkin virtu rétt Ísraela til að verja sig.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti sem nú sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins sem frambjóðandi til embættisins, hefur þá einnig bæst í hóp þeirra sem krefja Ísraela um að láta af drápum sínum. Það er stefnubreyting en Trump hefur til þessa verið staðfastur í stuðningi sínum við Ísrael. Í útvarpsviðtali sagði Trump Ísraela hafa tapað áróðursstríðinu og hvatti þá til að láta af hernaðinum. “Látið af þessu, komið á friði og hættið að drepa fólk,” sagði Trump.