Að minnsta kosti 19 Palestínumenn eru látnir og yfir 200 særðir eftir linnulitlar árásir Ísraelshers á Nuseirat flóttamannabúðirnar á Gaza síðasta sólarhringinn. Ísaraelar hafa ráðist ítrekað með sprengjuregni á búðirnar síðustu daga.
Síðastliðinn föstudag særðist fjöldi blaðamanna í árás Ísraelshers á búðirnar, þar sem þeir voru að störfum. Að minnsta kosti einn þeirra er í lífshættu. Um 140 blaða- og fréttmenn hafa látið lífið frá því árásarstríð Ísraela á Gaza hófst 7. október.
Ísraelskir skriðdrekar réðust beint að blaðamönnunum, að því er fram kom í yfirlýsingu tyrkneska ríkissjónvarpsins TRT. Myndatökumaður TRT, Sami Shehada, missti annan fótinn í árásinni. Í yfirlýsingunni segir að enginn vafi leiki á því að árásin hafi verið gerð að yfirlögðu ráði þrátt fyrir að blaða- og fréttamenn hafi verið kyrfilega merktir sem slíkir.
„Við vorum að taka myndir á öruggum stað, ég var í skotheldu vesti og með hjálm, meira að segja var bíllinn sem ég var í merktur PRESS og TV. Það var augljóst að ég var almennur borgari og blaðamaður. Við vorum skotmarkið,“ er haft eftir Shehada í frétt CNN, þar sem hann lá á skurðarborðinu.
Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa lýst því að vísvitandi árásir og morð á blaðamönnum séu stríðsglæpir. Í febrúar síðastliðnum lýstu Sameinuðu þjóðirnar því að Ísraelsher hefði ráðist á blaðamenn þrátt fyrir að þeir væru greinilega merktir sem slíkir, í merktum jökkum og með merkta hjálma.
Slíkar árásir sýni fram á að „dráp, meiðsl og fangavist séu vísvitandi stefna Ísraelshers til að hindra fjölmiðla og þagga niður gagnrýna fréttamennsku,“ sagði í yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.