„Það er alveg sama hvaða orðasalat Katrín Jakobsdóttir mun bjóða upp á þegar hún tilkynnir forsetaframboð sitt á eftir: fyrir starfandi forsætisráðherra (tala nú ekki um á erfiðum tímum) er það augljóslega stórt skref niður á við að sækjast eftir embætti forseta.“
Þetta skrifar fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson laust upp úr hádegi en segja má að spá hans hafi að mestu gengið eftir. Á fjölmiðlafundi nú fyrir skömmu sagði Katrín meðal annars að hún væri ekkert meira ómissandi í stjórnmálum en hver annar og neitaði því að skoðanakannanir hefðu haft áhrif á ákvörðun hennar, en Vg hefur mælst með svo lítið fylgi að flokkurinn er í hættu á að detta út af þingi.
Illugi segir á hinn boginn ljóst að Katrín sé að reyna að koma sér í þægilegt skjól. Hún sé í raun á flótta undan fyrrnefndnum skoðanakönnunum. „Með fullri virðingu fyrir starfi forseta, sem ýmsir geta notað til ágætra verka, þá lýsir þetta skref því að hún hefur gefist upp, og hugsar nú um það eitt að koma sjálfri sér í þægilegt skjól áður en kjósendur vísa henni úr forsætisráðuneytinu án þess að hún eigi vísa huggulega innivinnu. Ekkert sem hún mun segja um allt það gagn sem hún telur sig geta gert sem forseti getur megnað að fela þá staðreynd að hún er að hlaupast á brott frá verkum sínum og framtakið er eingöngu hugsað henni sjálfri til hagsbóta. Þannig er nú það.“