Katrín Jakobsdóttir mælist með mest fylgi þeirra ellefu frambjóðenda til forseta sem Maskína lagði fyrir þátttakendur í könnun sem gerð var fyrstu fjóra dagana eftir að Katrín hafði lýst yfir framboði. 28,0% þátttakenda krossa við Katrínu, 32,9% þeirra sem tóku afstöðu til frambjóðenda. Baldur Þórhallsson kemur næstur með 26,7% og svo Jón Gnarr 19,6%.
Könnunin er gerð þegar Katrín var aðalefni allra frétta og umræðu í samfélaginu. Telja má því líklegt að hún sýni hæstu mælingu á fylgi Katrínar. Og það er í takt við könnun Maskínu frá nóvember þar sem fólk var spurt um traust á ráðherrum. Þá sögðust 34,1% þeirra sem tóku afstöðu treysta Katrínu vel.
Þá, eins og nú, nýtur Katrín afgerandi meira fylgis meðal stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna. Ef svör þeirra eru tekin sérstaklega þá segjast 51% stuðningsmanna ríkisstjórnarflokka ætla að kjósa Katrínu, en 27% stuðningsfólks annarra flokka og enn lægra hlutfall meðal þeirra sem óákveðnir, neita að svara eða ætla ekki að kjósa.
Katrín nýtur mest fylgis meðal stuðningsfólks Vg, 93,1% þess vill Katrínu sem forseta. Síðan kemur Sjálfstæðisflokkur (44,2%), Framsókn (42,1%) og Viðreisn (39.5%). Katrín virðist því frambjóðandi hægrisins, ef eitthvað er. Hún fær líka mestan stuðning kjósenda Miðflokksins. Baldur Þórhallsson vinnur Katrínu meðal kjósenda Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins og Sósíalista.
Ekki er merkjanlegur munur á stuðningi við Katrínu milli kynja á meðan merkjanlega fleiri konur styðja Baldur og Höllurnar tær, Höllu Tómasdóttur og Höllu Hrund Logadóttur. Jóin Gnarr nýtur merkjanlega meiri stuðnings meðal karla.
Katrín nýtur meira fylgis eftir því sem fólk eldist en Jón Gnarr öfugt, fylgi hans er mest meðal hinna yngstu og yngri miðaldra. Aðrar breytur sýna lítinn mun, búseta, tekjur eða menntun.
Þar sem þetta er fyrsta mælingin á fylgi eftir að Katrín steig fram er freistandi að bera hana saman við fyrstu könnunina eftir að Guðni Th. Jóhannesson bauð sig fram 2016. Þá mældist Guðni Th. með 59,2% fylgi þeirra sem tóku afstöðu. Þetta fylgi hélst í næstu könnunum en á endanum fékk 39,1% atkvæða í kosningunum, missti frá sér um 20 prósentustig í kosningabaráttunni.
Það var Halla Tómasdóttir sem helst tók fylgi frá Guðna, enda eina konan meðal þeirra sem mældust með eitthvað fylgi að ráði. Halla fékk 1,7% í fyrstu könnuninni eftir að Guðni tilkynnti um framboð en fékk 27,9% í kosningunum, bætti við sig 26 prósentustigum í baráttunni.
Í fyrstu könnun sem gerð var 1996 eftir að Ólafur Ragnar Grímsson lýsti yfir framboði fékk hann 61% fylgi í könnun DV, lang mest allra frambjóðenda. Uppskeran varð svo 41,4% atkvæða í kosningunum, svipuð þróun og varð hjá Guðna Th. tuttugu árum síðar.
Þegar Þóra Arnórsdóttir tilkynnti framboð 2012 gegn sitjandi forseta mældist fylgi hennar 46,4% í fyrstu könnun. Niðurstaðan var 33,2% atkvæða, eilítið meira en Katrín mælist með nú.
Niðurstöður könnunar Maskínu eru annars þessar, ef aðeins eru tekin með svör þeirra sem tóku afstöðu:
Katrín Jakobsdóttir: 32,9%
Baldur Þórhallsson: 26,7%
Jón Gnarr: 19,6%
Halla Tómasdóttir: 7,3%
Halla Hrund Logadóttir: 5,7%
Arnar Þór Jónsson: 3,2%
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir: 1,9%
Ástþór Magnússon: 0,6%
Sigríður Hrund Pétursdóttir: 0,5%
Helga Þórisdóttir: 0,4%
Guðmundur Felix Grétarsson: 0,2%
Aðrir: 1,0%