Fyrr í dag sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, það jafngilda vantraustsyfirlýsingu á ríkisstjórnina ef forsætisráðherra ákveður að fara í forsetaframboð. Flokksbróðir hennar, Björn Leví Gunnarsson, tekur jafnvel enn dýpra í árinni og segir að Katrín Jakobsdótti sé einfaldlega að hlaupast undan ábyrgð. Hann gagnrýnir einnig þann tíma sem Katrín hefur tekið sér til að tilkynna framboð.
„Ég geri svo sem ekki sérstaka athugasemd við að Katrín bjóði sig fram til forseta. Hún má það alveg. En það gerist ekki bara í einhverju tómarúmi. Fólk hættir þeim störfum sem það er að sinna þegar það fer í framboð – og þegar um er að ræða forsætisráðherrastarfið þá er það aðeins öðruvísi en að hætta í öðrum störfum,“ segir Björn á Facebook.
Hann segir að þó sumir vilji deila um hvort þetta megi túlka sem vantraust á ríkisstjórnina þá sé eitt þó ljóst, Katrín sé að hlaupa undan ábyrgð. „Einhverjir túlka „vantraust“ mjög þröngt og finnst þessi athugasemd um að þetta sé vantraustsyfirlýsing á ríkisstjórnina sé ekki alveg nákvæm greining á stöðunni, en í samhenginu að það skipti máli hver stjórnar þá á þetta bara mjög vel við. Það skiptir greininlega ekki það miklu máli … eða ef það skiptir í alvörunni það miklu máli (svo við trúum nú að fólk segi það sem það meinar) þá er þetta tvímælalaust að hlaupast undan ábyrgð. Þess vegna er yfirlýsingin um að forsætisráðherra sé alvarlega að íhuga framboð líka sambærilegt vandamál. Fólk sem tekur ábyrgð sinni alvarlega, ábyrgðinni um að stjórna af því að enginn annar getur það, er ekki að velta því alvarlega fyrir sér að fara að gera eitthvað annað,“ segir Björn og bætir við að lokum:
„Að því sögðu, þá er ég enn á þeirri skoðun að forsætisráðherra geti alveg gert þetta. Mér finnst það bara frekar illa gert og ég veit ekki alveg hvað á að gerast frá því í gær þangað til á morgun (eða svo) sem hefur áhrif á það hver ákvörðunin verður. Auðvitað hefði svarið bara strax átt að vera „nei, ég ætla ekki að bjóða mig fram sem forseta Íslands“ en fyrst það var ekki svarið þá var augljóst að forsætisráðherra var að íhuga einmitt það. Af öllum sem gætu boðið sig fram til forseta þá ætti forsætisráðherra, sem er einmitt handhafi forsetavalds á Íslandi, að geta svarað því bara strax af eða á í staðinn fyrir að vesenast svona með þetta.“