Enginn árangur hefur náðst í viðræðum Hamas og Ísraela í Kaíró um vopnahlé á Gaza. Þetta er haft eftir fulltrúum beggja aðila. Á sama tíma og Egyptar, Katarar og Bandaríkjamenn reyna að miðla málum milli stríðandi fylkinga hótar Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, enn árás á borgina Rafah, sem er full stafnana á milli af fólki á flótta.
Netanyahu segir nú að búið sé að dagsetja árás á Rafah, en hefur ekki gefið upp hvenær af henni eigi að verða né hefur hann gefið frekari upplýsingar um hvað slík árás inniber eða hvernig tryggja skuli að óbreyttir borgarar geti yfirgefið borgina. Hvert þeir ættu að fara er heldur ekki ljóst. Tölur um hversu margir Palestínumenn eru í borginni eru nokkuð á reiki en líklega eru þeir um 1,4 milljónir. Þar af eru um 600 þúsund börn.
Fulltrúar Hamas hafa velt því upp hver tilgangurinn með áframhaldandi friðarviðræðum sé, í ljósi þessara yfirlýsinga Netanyahu. Fulltrúi Hamas samtakanna sagði í gærkvöldi að Ísraelar hefðu í engu breytt afstöðu sinni hvað varðar hersetu á Gaza og áframhaldandi hernað, meðal annars árásina á Rafah. Þar af leiðandi hefði ekkert þokast áfram í viðræðunum. Þetta er í ósamræmi við það sem haft var eftir ónefndum egypskum embættismönnum í fjölmiðlum, sem héldu því fram að árangur hefði náðst.
Ísraelskir fjölmiðlar hafa eftir heimildum innan úr ísraelska stjórnkerfinu að enginn markverður árangur hafi náðst, og samkomulag væri ekki í sjónmáli. Langt væri milli aðila. Hins vegar sagði utanríkisráðherra Ísraels, Israel Katz, í gær við herútvarpið að viðræðurnar nú væru það sem kæmist næst samkomulagi frá því í nóvember, þegar vopnahlé var samþykkt og Hamas leystu fjölda gísla úr haldi. Katz sagði að um krítískan tímapunkt væri að ræða í viðræðunum og ef saman gengi myndi fjöldi gísla komast heim.
Fulltrúar Bandaríkjamanna segja að Hamas hefði verið kynnt tillaga um vopnahlé, með því skilyrði að gíslum yrði sleppt. Það væri nú í höndum samtakanna að taka ákvarðanir um viðbrögð.
Gagnrýni á framferði Ísraela á Gaza, þar sem yfir 33 þúsund Palestínumenn hafa verið drepnir síðasta hálfa árið, hefur farið æ harðnandi á alþjóðavettvangi. Þá er yfirstandandi neyðarástand á svæðinu þar sem skortur er á öllu, matvælum, drykkjarvatni, eldsneyti, lyfjum og lækningavörum. Megnið af þeim 2,3 milljónum sem byggja Gaza eru heimilslaus og hungursneið er yfirvofandi.