Sjö hjálparstarfsmenn hjálparsamtakanna World Central Kitchen eru látnir eftir árás Ísraelshers á Gaza í gærkvöldi. Árás var gerð á bílalest hjálparsamtakanna sem voru greinilega merktir.
Hinir látnu voru frá Palestínu, Ástralíu, Póllandi, Bretlandi og þá var einn hinna látnu með tvöfalt ríkisfang, kanadískt og bandarískt.
Í yfirlýsingu World Central Kitchen kemur fram að haft hafi verið samráð við ísraelska herinn um ferð bílalestarinnar en þrátt fyrir það hafi verið ráðist á hana þegar hún var að yfirgefa vöruhús í Deir al-Balah. Þar hafði hjálparstarfsfólkið verið að afferma bílanna af yfir 100 tonnum af hjálpargögnum til dreifingar á Gaza.
Í yfirlýsingu samtakanna segir að árásin sé ófyrirgefanleg, hún sé ekki aðeins árás á gegn samtökunum sem slíkum heflur gegn hjálparsamtökum sem bregðist við og reyni að veita hjálp í skelfilegum aðstæðum þar sem matur sé notaður sem stríðstól.
Samtökin hafa stöðvað starfsemi sína á Gaza og munu taka ákvarðanir í framhaldinu um framtíð hjálparstarfsins. Samtökin ráku fyrir árásina á sjöunda tug eldhúsa í mið- og suðurhluta Gaza þar sem eldaðar voru hundruð þúsunda máltíða dag hvern.
Árásin hefur verið fordæmd víða um heim. Belgíski utanríkisráðherrann hefur þannig kallað eftir því að hjálparstarfsemnn verði að njóta verndar, rétt eins og almennir borgarar. Hið sama gerði utanríkisráðuneyti Kýpurs og hið bandaríska, og Norska flóttamannaráðið fordæmdi árásirnar. Þá hafa áströlsk stjórnvöld kallað ísraelska sendiherrann þar í landi á fund sinn og krefjast rannsóknar á árásinni.