Helsti samkvæmisleikur þjóðarinnar þessa helgina hlýtur að vera að reyna að spá fyrir um hver taki við af Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra. Margir, ef ekki flestir, hafa spáð því að Sigurður Ingi Jóhennessson, formaður Framsóknarflokksins, verði arftaki hennar. En þó ekki allir, líkt og Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, er hún telur meiri líkur á því að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, núverandi fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verði næsti forsætisráðherra.
„Ég óska Katrínu Jakobsdóttur alls hins besta – meira um það síðar. Nú ætla ég hins vegar að taka þátt í samkvæmisleiknum ,,Hver verður í hvaða ráðherrastóli“ og veðja á breytingarnar. VG vill ekki að Bjarni Ben verði forsætisráðherra og Sjálfstæðismenn vilja ekki Sigurð Inga. Lausnin verður að Þórdís Kolbrún verður forsætisráðherra,“ skrifar Oddný á Facebook.
Hún spáir því að Sigurður Ingi taki við af Þórdísi Kolbrúnu sem fjármálaráðherra. „Svandís verður innviðaráðherra og þá fellur vantraust á hana sem matvælaráðherra dautt niður. Bjarni Jónsson verður matvælaráðherra. Hann verður valinn umfram Bjarkeyju vegna menntunar hans og reynslu á því sviði. Þetta er alla vega hugmynd til að vinna með ef stjórnarflokkarnir vilja halda út kjörtímabilið. En best væri fyrir okkur öll að kjósa sem fyrst,“ segir Oddný.