Það stefnir í nokkuð spennandi forsetakosningar ef marka má nýjust skoðanakannanir. Samkvæmt könnun sem Prósent gerði fyrir Morgunblaðið þá stefnir í að fjórir frambjóðendur séu að fara að skipta á milli sín yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Ofan á það þá er mjög mjótt á munum milli þeirra. Baldur Þórhallsson mælist með mest, 27 prósent, en ekki er marktækur munur á honum og Katrínu Jakobsdóttur, sem mælist með 24 prósent. Halla Hrund Logadóttir og Jón Gnarr mælast svo með næstum sama fylgi, um 18 prósent.
Þau fjögur hafa háð nokkuð ólíka kosningabaráttu, hingað til í það minnsta, en þó er ljóst að öll virðast þau meðvituð um ákveðin grundvallaratriði sem ekki er hægt að komast hjá, sé maður í framboði til forseta Íslands. Eins og að birta mynd af sér að knúsa lamb. Þórdís Gísladóttir rithöfundur vekur athygli á þessu á Facebook og birtir myndirnar sem sjá má hér fyrir ofan.
„Knúsa, skjóta eða éta?,“ spyr annar rithöfundur og fyrrverandi frambjóðandi, Andri Snær Magnason. En það er hægar sagt en gert að halda á lambi. Það er að segja ef maður ætlar að halda á því rétt. Þriðji rithöfundurinn Hallgrímur Helgason vekur athygli á þessu. Aðeins einn sýnir rétt handtök. Enda sá eini úr sveit. Það er Baldur Þórhallsson, segir Hallgrímur. „Þú sérð hvernig hann heldur á lambinu,“ segir Hallgrímur.
Hann bætir svo við að Halla Hrund sé ekki úr sveit, líkt og margir halda. „Átti held eg ömmu og afa og var mikið hja þeim, en fædd á mölinni held ég,“ segir Hallgrímur. Hér fyrir neðan má virða fyrir sér handtök frambjóðenda nánar.