Tyrkir hafa lýst yfir stuðningi við Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra Hollands, í stöðu framkvæmdastjóra NATO. Tyrklandsforseti, Recep Tayyip Erdogan, tilkynnti Rutte þetta í símtali, að því er forsetaskrifstofan hefur greint frá.
Erdogan mun hafa lagt áherslu á að NATO vænti þess af nýjum framkvæmdastjóra að hann setji baráttu gegn hryðjuverkum í forgang, sem og að hann hafi stefnumál og stöðu aðildarríkja utan Evrópusambandsins einnig á dagskrá.
Jens Stoltenberg mun láta af embætti framkvæmdastjóra NATO í október og er staða Rutters sem arftaka hans hvað vænlegust. Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Frakkland eru öll fylgjandi því að hann taki við stöðunni, auk meirihluta aðildarríkja bandalagsins.
Það mun hins vegar ekki duga til ef Rutte tekst ekki að sannfæra ríkin öll, því einróma samþykki þarf fyrir nýjum framkvæmdastjóra. Eftir að Svíar hlutu aðild eru ríkin 32 og þurfa þau öll að sættast á Rutte, eða annan kandidat.
Talið var fyrirfram að hvað mestra efasemdra gætti hjá Tyrkjum og Ungverjum. Ungverjar hafa raunar lýst því að þeir muni ekki samþykkja Rutte en greinendur eru á því að það geti mögulega breyst, ekki síst í ljósi þess að Tyrkir hafi nú lýst yfir stuðningi sínum.