Hafa ofurvextir keyrt hagkerfið niður í samdrátt?

Hagstofan mældi 4,0% samdrátt í landsframleiðslunni á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þetta er mikill viðsnúningur frá í fyrra, en þá var 8,4% hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi. Sú þensla sem Seðlabankinn segist vera að berjast við er því horfin, eftir að hafa lækkað hratt á síðustu mánuðum.

Þetta sést á grafi sem fylgir tilkynningu Seðlabankans.

Þarna höfum við dregið hring um cóvid-tímann og síðan dregið línu til að sýna breytingu á hagvexti frá fyrsta ársfjórðungi 2023 til fyrsta ársfjórðungs þessa árs.

Ofan á augljósan samdrátt þá berast fréttir sem gætu boðað enn meiri samdrátt. Talið er að tekjur ferðaþjónustunnar í ár verði allt að 10% lægri en í fyrra sem gæti leitt samdráttar í þjóðartekjum upp á um 90 milljarða króna. Og horaður fiskur á miðunum bendir til þess að Hafrannsóknarstofnun muni eftir sjómannadaginn leggja til minni veiði.

Tilkynningu Hagstofunar má lesa hér:

Landsframleiðsla dróst saman um 4% á fyrsta ársfjórðungi

Áætlað er að landsframleiðsla hafi dregist saman um 4% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi 2024 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Talið er að einkaneysla hafi aukist um 0,2%, samneysla um 1,2% og fjármunamyndun um 2,4% en að teknu tilliti til birgðabreytinga er hins vegar áætlað að þjóðarútgjöld hafi dregist saman um 2,4% að raungildi.

Aukinn halli var á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi samanborið við fyrra ár sem þýðir að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var neikvætt um 1,4%.

Á fyrsta ársfjórðungi er talið að árstíðaleiðrétt landsframleiðsla hafi dregist saman um 0,9% að raungildi samanborið við fjórða ársfjórðung 2023.

Framlag birgðabreytinga vegur þyngst í samdrætti
Á fyrsta ársfjórðungi jókst heildarverðmæti birgða um 3,3 milljarða króna á verðlagi ársins á milli samliggjandi ársfjórðunga sem að mestu má rekja til birgðaaukningu sjávarafurða. Birgðir olíu lækkuðu um 1,5 milljarða en birgðir áls, kísiljárns og annarra rekstrarvara jukust um 500 milljónir.

Þetta eru mikill umskipti frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs en þá mældist 38,5 milljarða króna aukning í heildarverðmæti birgða eða 35 milljarða meiri aukning en nú mælist. Ástæðuna má rekja til birgðastöðu sjávarafurða en á síðasta ári hafði stór loðnuvertíð mikil áhrif á birgðaaukningu fyrsta ársfjórðungs. Engar veiðiheimildir fyrir loðnu voru gefnar út á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Áhrif þessara umskipta í birgðasöfnun sjávarafurða á fyrsta ársfjórðungi, miðað við sama tímabil í fyrra, vega þungt í mati á breytingu landsframleiðslunnar á milli ára á föstu verðlagi. Framlag birgðabreytinga til hagvaxtar eru þannig 3,5% til lækkunar á fyrsta ársfjórðungi 2024.

Einkaneysla jókst um 0,2%
Einkaneysla stóð nánast í stað og jókst um 0,2% frá sama tímabili fyrra árs. Innlend neysla dróst almennt saman og dró úr krafti einkaneyslunnar. Mikill samdráttur var í neyslu varanlegra neysluvara eins og kaupum á bifreiðum. Einnig var hægari vöxtur í kaupum heimilanna á hálfvaranlegum neysluvörum. Á móti kemur að vöxtur var í einkaneysluútgjöldum vegna ferðalaga erlendis ásamt vexti í húsnæðislið og útgjöldum vegna heilsugæslu.

Samneysla jókst um 1,2%
Magnbreyting samneyslu frá fyrsta ársfjórðungi 2023 er áætluð 1,2%. Niðurstöður um fjármál hins opinbera á fyrsta ársfjórðungi 2024 verða birtar 6. júní næstkomandi.

Fjármunamyndun jókst um 2,4%
Á fyrsta ársfjórðungi var 2,4% raunaukning í fjármunamyndun samanborið við fyrsta ársfjórðung 2023. Aukningu fjármunamyndunar má að mestu rekja til aukinnar íbúðafjárfestingar sem áætlað er að hafi aukist um 15,7% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2023. Áætlað er að fjármunamyndun atvinnuveganna hafi einnig aukist lítillega eða um 0,4%. Hins vegar benda fyrstu vísbendingar til þess að fjármunamyndun hins opinbera hafi dregist saman um 5,8% á fyrsta ársfjórðungi en nokkur óvissa ríkir um fjárfestingu hins opinbera þar sem endanlegar niðurstöður um heildarfjárfestingu ríkisins liggja ekki fyrir.

Talið er að fjármunamyndun á fyrsta ársfjórðungi hafi numið ríflega 246 milljörðum króna og sem fyrr vegur þar þyngst fjármunamyndun atvinnuveganna sem nam 167 milljörðum.

Aukinn halli á utanríkisviðskiptum
Áætlað er að vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd hafi verið neikvæð um tæpa 43 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi sem er töluvert meira en á sama ársfjórðungi síðasta árs þegar hallinn nam ríflega 19 milljörðum króna. Aukinn halli á utanríkisviðskiptum hefur þannig neikvæð áhrif á landsframleiðsluna um 1,4%.

Hér er rétt að setja fyrirvara um gæði ákveðinna grunngagna, sem ásamt öðrum gagnalindum liggja til grundvallar útreikningum á þjónustuviðskiptum við útlönd. Unnið er að frekari sannprófun þessara gagna sem munu þó ekki hafa mikil áhrif á heildarniðurstöðuna.

Vinnumagn dregst saman um 1,7% á milli ára
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda hafi dregist um 1,7% á fyrsta ársfjórðungi 2024 borið saman við sama tímabil árið 2023 en fjölgun starfandi einstaklinga eykst hins vegar um 2,1%. Sé litið til einstakra atvinnugreina kemur í ljós að það er samdráttur í nánast öllum atvinnugreinum nema í fjölda vinnustunda í byggingarstarfsemi.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman um 0,9%
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman að raungildi um 0,9% á fyrsta ársfjórðungi 2024 borið saman við fjórða ársfjórðung 2023. Árstíðaleiðrétt mældist 1,8% aukning í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung. Samdráttur mælist í öllum öðrum helstu liðum, 0,4% í samneyslu, 1,4% í fjármunamyndun og þá dregst útflutningur saman um 2,3% og innflutningur um 0,4%.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí