Halla Tómasdóttir fer úr 18,6% í 24,1% á einni viku í könnunum Maskínu. Hún mælst nú með nákvæmlega sama fylgi og Katrín Jakobsdóttir, sem sígur aðeins frá fyrri viku. Þá var Katrín með 7,1 prósentum meira fylgi en Halla, en nú eru þær jafnar.
Katrín hefur ekki mælst lægri í könnunum Maskínu en nú, sem getur ekki verið gott veganesti inn í lokaslaginn. Sama á við um Baldur Þórhallsson (15,4%) og Jón Gnarr (9,9%). Þeir virðast vera að missa af lestinni, eru ekki lengur með raunhæfa möguleika á að ná kjöri. Eitt er að vera 8,7 til 14,2 prósentum á eftir Höllu og Katrínu, annað að vera á skarpri niðurleið á lokametrunum.
Sú er ekki reyndin hjá Höllu Hrund Logadóttur. Hún bætir eilítið við sig milli vikna, fer úr 16,6% í 18,4% en er 5,7 prósentum á eftir nöfnu sinni og Katrínu. Það er minni munur en Baldur þyrfti að brúa, en samt þó nokkur.
Seinna í dag mun Prósent birta sína könnun og á morgun kemur Gallup með sína. Könnun Maskínu fór fram dagana 27. til 30. maí, frá mánudegi til fimmtudags í þessari viku og sýnir því ágætlega þar sviptingar sem eru á lokametrunum. Þær eru þær helstar að Baldur og Jón missa fylgi og líka Katrín. Halla Hrund bætir við sig en einkum og sér í lagi Halla Tómasdóttir.