Ragnar Þór hvetur til nýrrar búsáhaldabyltingar

„Hvar í samanburðarlöndum væri það látið óátalið að húsnæðisvextir væru í tveggja stafa tölu, leigumarkaður óregluvæddur, fyrirtæki undanskilin samkeppniseftirliti og auðlindir þjóðar gefnar auðhringjum með lögum? Hvergi hefðu stjórnmálin þor eða hugmyndaflug til að gera flest af því sem einkennir ferilskrá núverandi ríkisstjórnar.“

Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í pistli sem hann birti í gær á vefsíðu félagsins í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins, 1. maí. Ragnar Þór segir að nauðsynlegt sé að senda skýr skilaboð til stjórnvalda og stjórnmálanna þess efnis gð tími aðgerðarleysis og óstjórnar sé að renna út. 

„Aðgerðarleysið í húsnæðismálum og botnlaust dekur við sérhagsmunaöflin er komið á það stig að útilokað hlýtur að vera fyrir almenning að sitja lengur þegjandi og hljóðalaus hjá. Á meðan afurðastöðvar nudda saman lófum, eftir að Alþingi Íslendinga gerði þær undanþegnar frá samkeppnislögum, stendur til að gefa frá okkur gríðarlega verðmætar auðlindir með frumvarpi um lagareldi. Á sama tíma eru vextir á húsnæðislánum almennings í tveggja stafa tölu og algjört neyðarástand ríkir á leigumarkaði.“

Þessi staða, skrifar Ragnar, er ekki vegna utanaðkomandi, óumflýjanlegra eða ófyrirséðra aðstæðna. Hún sé þaulhugsuð, skipulögð og framkvæmd á stjórnarheimilinu, með stuðningi Seðlabankans. 

„Svar stjórnmálanna í húsnæðismálum er aumkunarvert þar sem allir lykilflokkar í pólitík hafa skilað auðu og bera alla ábyrgð,“ skrifar Ragnar Þór. Þúsundir íbúða hafi farið af markaði í skammtímaleigu til ferðamanna, með blessum borgaryfirvalda og stjórnvalda, sem enga viðleitni hafi sýnt í að takast á við vandann. 

Segir Seðlabankastjóra standa fyrir grímulausri sérhagsmunagæslu

„Til að bæta gráu ofan á svart var seðlabankastjóri nýverið skipaður áfram í embætti þrátt fyrir miskunnarlausa okurvaxtastefnu sem er á góðri leið með að ganga frá skuldsettum heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þar er ólíklegt að um stórfelld og ítrekuð hagstjórnarmistök sé að ræða, eins og Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði benti nýverið á og seðlabankastjóri Evrópubankans hefur tekið undir, heldur enn eitt dæmið um grímulausa sérhagsmunagæslu,“ skrifar Ragnar Þór enn fremur, og vandar ekki Ásgeiri Jónssyni Seðlabankastjóra kveðjurnar. 

„Hversu lengi og hve langt munu stjórnvöld seilast í að koma verðmætum þjóðarinnar í hendur sérhagsmuna sem þau styðja? Og hversu lengi og hve langt mun Seðlabankinn komast í að færa bönkunum eignir og ráðstöfunartekjur almennings með stuðningi stjórnvalda?

Það er undir þolmörkum okkar komið því ef þetta er sú framtíðarsýn sem við erum tilbúin að veita þegjandi samþykki okkar fyrir, þá fer illa,“ skrifar Ragnar Þór. Mjög illa muni fara fyrir okkar ríka samfélagi og börnunum okkar, sem fái það verkefni að vinda ofan af þeirri misskiptingu og eignatilfærslu sem er að byggjast, verði það á annað borð yfirhöfuð hægt. 

„Það ætti að vera okkur öllum ljóst að ástandið mun versna, og það mun versna þar til við höfum kjark til að rísa upp. Eins og við gerðum í búsáhaldarbyltingunni.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí