„Yfir 400 starfsmenn misstu vinnuna hjá Play þegar fyrirtækið varð gjaldþrota. Þar með er þó aðeins hálf sagan sögð eins og þingmenn kjördæmisins fjölluðu um á fundi með Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi á dögunum. Til að nefna dæmi misstu 120 vinnuna hjá Airport Associates, helmingur veltu veitingafyrirtækisins sem þjónustaði Play gufaði upp, a.m.k. 13 flugvirkjar misstu vinnuna og hótel og aðrir ferðaþjónustuaðilar hafa fundið fyrir samdrætti. Já, áhrifin af falli Play á Reykjanesskaga eru mikil og þau eru ekki öll komin fram. Hér er átt við svæði sem hefur staðið höllum fæti ef við horfum á menntun, ef við horfum á atvinnuþróun, ef við horfum líka á álag vegna jarðhræringa. Við verðum að hafa í huga að þótt nýr aðili komi inn til að fylla skarð Play þá er það nú þannig að ef sá aðili hefur ekki heimilisfesti hér á landi þá munu staðbundin áhrif ekki vera þau sömu á þjónustu og atvinnusköpun. Þess vegna, virðulegi forseti, skiptir máli að bregðast við og í því viðbragði verðum við að huga að mörgu. Við eigum að huga að innviðunum. Við eigum að huga að því hvort það þurfi að flýta Reykjanesbrautinni, hvort þurfi að horfa á Suðurnesjalínu, hvort það þurfi að horfa á viðbygginguna við fjölbrautaskólann,“ sagði Halla Hrund Logadóttir þingmaður Framsóknar.
„Við eigum líka, virðulegi forseti, að horfa á menntun því að menntun getur gripið fólk sem nú hefur misst vinnuna og hjálpað því að koma sterkara inn í samfélagið. Það er þess vegna sem Framsókn er að leggja til í samvinnu við fleiri aðila að við stofnum Háskólafélag Suðurnesja, háskólafélag sem er sambærilegt og starfar annars staðar eins og á Suðurlandi og miðar að því að efla nýsköpun, atvinnuþróun og efla rannsóknir þannig að þetta svæði geti verið öflugt. Ég skora á hæstvirta ríkisstjórn að taka þessu opnum örmum og sækja fram.“