Skýrt kom fram í viðtali við Höllu Hrund Logadóttur á Samstöðinni í gær að hægristefna Snorra Mássonar og félaga hans í Miðflokknum vekur andúð framsóknarþingmanna.
Í dag bætist Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, í hóp gagnrýnenda Snorra. Nú vegna ummæla hans í Silfrinu í vikunni.
„Ég staldraði við orð Snorra Mássonar þar sem hann talar um ‘’útlendinga’’ eins og um væri að ræða einsleitan hóp sem væri ofaukið hér á landi.
Hvað á hann við?
Er hann að tala um allt það góða fólk sem heldur upp fiskvinnslunni í landinu og allt það fólk sem vinnur flest störfin í ferðaþjónustunni – að ég tali nú ekki um byggingariðnaðinn?“ Spyr Íris.
Hún bætir við:
„Hér í Eyjum eru um 18% íbúa með erlent ríkisfang. Flestir harðduglegt fólk sem eru þátttakendur í samfélaginu; margir hverjir búnir að kaupa húseignir og með börn í skóla.
Þetta fólk ætti sannarlega ekki að þurfa að hlusta á nýkjörinn varaformann Miðflokksins tala svona til þeirra – eins og þau séu bara að þiggja frá samfélaginu og það væri fínt að losna við þau úr landi. Þau eiga betra skilið,“ er meðal þess sem Íris segir í færslu á facebook.