„Hæstvirtur ráðherra muni hafa frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga þar sem íbúar eru færri en 250.“
„Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga var hæstvirtur innviðaráðherra ansi ómyrkur í máli gagnvart þeim sveitarfélögum sem telja færri íbúa en 250 og fann þeim raunar allt til foráttu og hyggst þvinga til sameiningar. Já, þetta er ótrúlegt en satt,“ sagpi Ingibjörg Davíðsdóttir Miðflokki á Alþingi í gær.
„Þessu til stuðnings skrifaði hæstvirtur ráðherra síðan grein á dögunum þar sem hann segir m.a. réttilega að við viljum öll búa í samfélagi þar sem grunnstoðirnar eru sterkar. Þá vék ráðherrann að rannsóknum sem segja að fjölmennari sveitarfélög veiti almennt betri og hagkvæmari þjónustu, laði að sér hæfara starfsfólk og hafi meiri slagkraft til að byggja upp innviði. Til þess að styrkja þetta þjónustuhlutverk sveitarfélaga segist innviðaráðherra hafa lagt fram frumvarp um breytingar á sveitarstjórnarlögum í samráðsgátt stjórnvalda. Þetta eigi sér langan aðdraganda og lagt er til að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði lögfestur við töluna 250.
Hæstvirtur ráðherra muni hafa frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga þar sem íbúar eru færri en 250. Ráðherrann spyr síðan: Hver er tilgangur sveitarfélags sem hefur útvistað allri lögbundinni þjónustu við íbúa sína til annars sveitarfélags? Þannig að mig langar að spyrja og ég átta mig á því að ráðherra er ekki staddur hér í salnum: Hvers vegna velur ráðherrann að tala svona niður fámenn sveitarfélög? Hvaðan kemur talan 250? Hvers vegna gefur hann í skyn að fámenn sveitarfélög búi yfir síður hæfu starfsfólki?
Hvers vegna velur ráðherrann að skauta fram hjá því að fámenn sveitarfélög gera samninga við stærri sveitarfélög um þjónustu og greiða fyrir það? Ráðherrann talar um að til að tryggja viðunandi þjónustustig er mikilvægt að rétt umgjörð sé fyrir hendi. Hvernig lítur sú umgjörð út? Af hverju þessi þvingun og offors sem birtist í fyrirætlan ráðherra? Er ekki betra að vilji til sameiningar komi frá sveitarfélögunum sjálfum? Við vitum um nýlegt dæmi, Skorradalshrepp. Þetta er hægt án þvingunar,“ sagði Ingibjörg Davíðsdóttir.