Fyrir um ári síðan fjallaði Samstöðin ítrekað um það hvernig svokallaðir grenndargámar í Reykjavík væru hálfgerð plága í flestum hverfum. Í það minnsta var kvartað undan þeim jafnt í Vesturbænum og Breiðholti. Gagnrýnin var alltaf sú sama: vegna þess hve sjaldan gámarnir væru tæmdir þá flæddi rusl upp úr þeim með tilheyrandi viðbjóði. Í fyrra kom í ljós að gámarnir eru tæmdir svo ofboðslega sjaldan, á þriggja vikna fresti, að þetta vandamál er í raun óumflýjanlegt.
Nú er ári síðan þetta vandamál er enn til staðar. Í hverfi 108 er staðan í dag líkt og sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Íbúi í hverfinu vekur athygli á þessu innan Facebook-hóps hverfisins. Sá telur þó ástæðuna vera vegna sóðaskapar íbúa. Viðkomandi segist hafa kvartað ítrekað yfir þessu við borgina. Hann segir að borgin hafi stungið upp á þeirri lausn að fjarlægja bara gámana, nokkuð sem margir íbúar óskuðu eftir í fyrra við litlar undirtektir hjá borgarstarfsmönnum. Svo virðist sem það sé ekki í myndinni að tæma gámana oftar en á þriggja vikna fresti.
„Svona er þetta búið að vera á grenndarstöðinni á Sogavegi. Ég sendi ábendingu á borgina í von um umbætur frá borginni og þeirra tillaga var að lausn væri að fjarlægja gámana ef þetta lagast ekki. Við þurfum að standa okkur betur. Ef gámarnir eru fullir er ekki lausn að hrúga sorpinu í kringum gámana,“ skrifar fyrrnefndur íbúi í hverfi 108 nú síðdegis.
Í athugasemdum eru nokkrir íbúar sem enn byggja skýjaborgir um heim þar sem Reykjavíkurborg getur tæmt ruslagáma, sem eru samtals um 40 talsins, örlítið oftar. „En að tæma oftar? ,“ spyr einn vongóður íbúi í 108.
Annar maður segir að þetta verkefni hljóti að teljast sem gerviþjónusta. „Þetta heitir „gerviþjónusta“, og er eingöngu þarna, sem og annars staðar, svo borgin geti sagt að þessi þjónusta sé til staðar. En ef þetta sinnir ekki þörfum borgarbúa er þetta ekki lengur þjónusta.“