Magnús Gunnarsson trillukarl í Grindavík er mjög ósáttur við hvernig hann hafi verið rekinn út úr eigin húsi við rýmingu síðastliðinn vetur í Grindavík.
Sjá nánar hér: https://www.youtube.com/live/W5QhKsEoP2I?si=0wUoSwNyXFaoZLp0
Magnús er í hópi nokkurra íbúa sem búa enn í Grindavík. Hann telur allt of snemmt að slá af blómlega byggð þar sem sterkt atvinnnulíf gæti hæglega áfram þrifist í Grindavík.
Í viðtali við Rauða borðið á Samstöðinni við Magnús og tvo aðra sem enn búa í Grindavík kom í gærkvöld fram að Grindvíkingarnar telja að fullorðið fólk eigi að ráða sjálft hvort það býr í Grindavík eða ekki. Þannig hafi það átt að vera í fyrri rýmingum sem Grindvíkingar líkja við ofbeldi.
Magnús gagnrýnir lögreglu og Almannavarnir. Hann segir lögreglumenn hafa farið svo miklu offari við rýmingu að löggur sem ekki voru starfi sínu vaxnar hafi „djöflast á hurðinni hjá honum“ og í eitt skipti öskrað: „Fariði að drulla ykkur út úr bænum!“
„Maður skynjaði hræðslu,“ segir Magnús sem telur að stress hjá löggunni skýri viðmótið.
Blaðamaðurinn Sigurbjörn Daði Dagbjartsson sem enn býr í Grindavík tók undir orð Magnúsar í þættinum. Sigurbjörn sagði að í fyrri rýmingu hafi sérsveitin verið kölluð til. Þótt Sigríður Björk ríkisslögreglustjóri hafi þrætt fyrir, hafi hennar menn borið vopn við rýminguna. Enginn vafi leiki að sérsveitarmennirnir hafi vegna mistaka verið vopnaðir.
„Hún þrætir eins og sprúttsali,“ segir Sigurbjörn um ríkislögreglustjóra þótt augljóst sé að mistök hafi orðið – löggur eigi við rýmingu vitaskuld ekki að bera vopn.
Magnús segist upplifa að hann hafi verið niðurlægður á viðkvæmri stundu þegar framkoma yfirvalda við íbúa hefði þurft að vera sérlega nærgætin.
Þá hafi björgunarsveitarmenn verið stressaðir. Dæmi séu um að fólk hafi ekki fengið að bjarga verðmætum vegna ótta og ákafa viðbragðsaðila. Hann sjái nú að íbúar hefðu ekki átt að hlíta því ofbeldi möglunarlaust sem á þeim dundi af hálfu yfirvalda.
„Þetta er fyrir neðan allar hellur og við ættum að fara fram á skaðabætur.“