„Það á að loka meðferðardeild Stuðla í fjórar vikur í sumar frá 10. júlí til 8. ágúst. Þetta fékk ég staðfest í gær. Þar hafa börn og unglingar fengið dýrmætan stuðning, meðal annars vegna hegðunar- og fíknivanda. Þetta er mjög sérhæft úrræði og hefur skipt sköpum fyrir margar fjölskyldur.“
Þetta skrifar Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, á Facebook en hann segir þetta eina af birtingarmyndum þess hvernig bráðnauðsynleg, raunar lífsnauðsynleg, þjónusta er fjársvelt á Íslandi,
„Þetta er enn ein birtingarmynd þess hve þjónusta við fólk á öllum aldri, sem glímir við fíknisjúkdóm, er brothætt á Íslandi. Þær stofnanir sem veita þessa þjónustu, sem getur skilið á milli lífs og dauða, eru svo fjársveltar að þær þurfa að loka á sumrin. Þetta eykur enn á vanda sem var mikill fyrir,“ segir Sigmar og bætir við að lokum:
„Biðlistarnir lengjast, álagið eykst á kerfið og þjónusta versnar mikið. Sumar stofnanir eru svo mikilvægar að þær eiga skilyrðislaust að vera opnar árið um kring. Engar undantekningar. Það gildir um meðferðardeild Stuðla. Þetta er sorglegt sinnuleysi.“