Samninganefnd Eflingar var rétt í þessu að undirrita kjarasamninga við Reykjavíkurborg eftir langt þref. Mikið hefur gengið á í þeim kjaraviðræðum sem hafa tafist langtum meir en aðrir kjarasamningar, þannig að greinilegt var að erfitt var að finna sameiginlega lendingu með lokaniðurstöðuna. Samningarnir hófust í apríl en þokaðist lítið áfram þar til Efling kallaði til ríkissáttasemjara í lok maí. Þá hafi loks komist „nokkur skriður á viðræðurnar, sem nú hefur skilað góðri niðurstöðu“.
Tilkynning Eflingar segir kjarasamninginn innihalda „sambærilegar launahækkanir og kjarasamningar Eflingar á almenna markaðnum“ og að mjög góður árangur hafi náðst til að mynda í „fjölgun undirbúningstíma hjá deildarstjórum sem starfa á leikskólum borgarinnar“, sem og að „bæta og skýra“ þá grein fyrir aðra starfsmenn leikskóla. Einnig hafi árangur mikill náðst í „ýmsum mikilvægum úrbótamálum sem samninganefnd Eflingar hafði sett á oddinn í viðræðunum“.
Samningurinn verður nú kynntur eins og vani er og atkvæðagreiðsla mun hefjast innan skamms þar sem niðurstöðu verði að vænta ekki síðar en 10. júlí.
„Samninganefnd Eflingar er ánægð og stolt af góðum árangri í viðræðum okkar við Reykjavíkurborg. Við settum okkur markmið vegna mikilvægra úrbótamála og við náðum árangri í þeim velflestum. Félagsfólk Eflingar sem að starfar hjá Reykjavíkurborg er ómissandi starfsfólk. Það er ánægjulegt að sjá og upplifa að Reykjavíkurborg skilur að hlusta þarf á kröfur okkar og mætir okkur með samningsvilja í kjarasamningsviðræðum“ segir Sólveig Anna.