Engin álitshnekkur fyrir Höllu að hafa fengið mörg „taktísk“ atkvæði

Líklega hefur aldrei áður i kosningum á Íslandi verið eins mikið talað um að „kjósa taktískt“. Ljóst er að margir kusu þann frambjóðanda sem viðkomandi taldi líklegastan til að fá fleiri atkvæði en Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra. Sumir hafa jafnvel fullyrt að Halla Tómasdóttir hafi verið kjörin forseti beinlýnis vegna þessa, þó ómögulegt sé að meta hve mörg atkvæði greidd henni hafi verið taktískt. Sumir hafa gagnrýnt þetta viðhorf en Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður er á þveröfugri skoðun. Hann telur þetta viðhorf eiga sér rót í því að það vanti „seinni umferð“ í forsetakosningum á Íslandi.  

„Það er ekkert ljótt og þaðan af síður ósiðlegt við að „kjósa taktískt“. Það eru engin svik eða illmennska eða lágkúra í því fólgin. Enda getur fólk ekki annars vegar krafist þess til dæmis að teknar verði upp tvær umferðir í forsetakosningum og hins vegar amast við því að fólk „kjósi taktískt“. Það sem greinilega gerðist var að fólkið sjálft, kjósendur, skipulagði í sjálfum kjörklefanum „aðra umferð“ forsetakosninganna síðasta sólarhringinn. Á grundvelli fjölmargra skoðanakannana sem allar settu Höllu Tómasdóttur og Katrínu í efstu sætin tvö,“ segir Illugi á Facebook.

Hann segir þetta í raun sjálfsagða hegðun hjá kjósendum. „Margir stuðningsmenn Höllu Hrundar og Baldurs litu því svo á að „fyrsta umferð“ væri búin og „önnur umferð“ fælist nú í því að kjósa milli Höllu Tómasdóttur og Katrínar Jakobsdóttur, því Halla Hrund og Baldur kæmu ekki lengur til greina. Og þetta fólk tók þá bara afstöðu samkvæmt eigin sannfæringu í sinni eigin „annarri umferð“ — vil ég frekar Höllu Tómasdóttur eða Katrínu? Og kaus samkvæmt því. Þetta er mjög eðlileg og sjálfsögð hegðun kjósanda í kjörklefa, og það á ekki að amast við því eða níða skóinn af því fólki sem þetta gerði. Það kaus ekkert síður „með hjartanu“ en aðrir, það var bara komið út í nýja umferð kosninganna,“ segir Illugi.

Sjálfur segist hann þó ekki hafa kosið taktískt. „Sjálfur gerði ég þetta reyndar ekki og kaus Höllu Hrund eins og ég hafði alla tíð ætlað en biturleiki á ekki við í garð þeirra sem „kusu taktískt“. Og það er heldur enginn álitshnekkir fyrir Höllu Hrund eða Baldur þó þau hafi „tapað atkvæðum“ á lokasprettinum síðasta sólarhringinn — ég ítreka að þá var í raun komið í „aðra umferð“ og stuðningsmenn þeirra litu (margir og réttilega) svo á að þau tvö væru þegar dottin naumlega úr leik. Það var ekki „hatur í garð Katrínar Jakobsdóttur“ sem réði þessu, heldur tók fólk sína lýðræðislegu ákvörðun. eins og það hafði sinn lýðræðislega rétt til: Hvorn af tveim frambjóðendum vil ég frekar?,“ spyr Illugi og bætir við að lokum:

„Það er heldur ekki álitshnekkir fyrir Höllu Tómasdóttur þó hún hafi augljóslega fengið fullt af svona „taktískum“ atkvæðum. Þetta var einfaldlega sú „önnur umferð“ forsetakosninganna, sem svo margir höfðu óskað eftir, og Halla Tómasdóttir vann þá umferð bara mjög örugglega.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí