Á fundi í Stokkhólmi þann 31. maí skrifaði Bjarni Ben forsætisráðherra undir tvíhliða varnarsamning á milli Íslands og Úkraínu. Á fundinum talaði Bjarni um að Úkraínumenn þurfi „tæki og tól“, og gaf þar með í skyn að Ísland tæki þátt í að fjármagna og senda vopn til Úkraínu. Samningurinn hefur verið birtur í heild sinni á vefsvæði Selenskí forseta Úkraínu (á ensku).
Hilmar Þór Hilmarsson prófessor gerði greinargóða úttekt á samningnum í aðsendri grein á Vísi sem hægt er að lesa hér.
Texti fréttatilkynningar Selenskí
Hér er þýðing á stuttri fréttatilkynningu forsetaembættis Úkraínu um innihald samningsins:
Í Stokkhólmi undirrituðu forseti Úkraínu Volodymyr Zelenskyy og forsætisráðherra Íslands Bjarni Benediktsson samning um öryggissamvinnu og langtímastuðning.
Ísland lofaði að veita Úkraínu til langs tíma víðtækan efnahagslegan, mannúðarlegan og varnarstuðning, auk þess að liðka fyrir framtíðaraðild landsins að ESB og NATO.
Á árunum 2024-2028 mun Ísland árlega úthluta a.m.k. 4 milljörðum ISK (tæplega 30 milljónir USD). Stuðningur við Úkraínu mun halda áfram allan samningstímann. Ísland er tilbúið til að fjármagna, kaupa og afhenda varnartengdar birgðir og búnað. Auk þess er það tilbúið til að aðstoða Úkraínu við að byggja upp sinn hergagnaiðnað.
Sérstakt atriði samningsins er að Ísland skuldbindur sig til að halda áfram stuðningi við flutninga á hergögnum og búnaði til Úkraínu frá NATO bandalagsríkjum með leiguflugvélum. Auk þess mun Ísland leggja sérstaka áherslu á að styðja við og skaffa búnað fyrir úkraínskar konur í Úkraínuher.
Sérstakir kaflar samningsins fjalla um stuðning við friðarformúlu Úkraínu, refsiaðgerðir gegn Rússlandi, bætur fyrir tjón, og að sækja árásaraðilann til saka fyrir rétti. Samningurinn gerir einnig ráð fyrir styrkingu félagslegra og borgaralegra innviða, þar með talið menntunar og orkuöryggis.
Ísland skuldbindur sig til aukinna diplómatískra fulltrúastarfa í Kænugarði til að efla dýpri og reglulegri samskipti við stjórnarráð, þing, borgaralegt samfélag og einkageirann í Úkraínu.
Takið sérstaklega eftir þessum atriðum:
Stuðningur við Úkraínu mun halda áfram allan samningstímann. Ísland er tilbúið til að fjármagna, kaupa og afhenda varnartengdar birgðir og búnað. Auk þess er það tilbúið til að aðstoða Úkraínu við að byggja upp sinn hergagnaiðnað.”
Og:
…Ísland skuldbindur sig til að halda áfram stuðningi við flutninga á hergögnum og búnaði til Úkraínu frá NATO bandalagsríkjum með leiguflugvélum. Auk þess mun Ísland leggja sérstaka áherslu á að styðja við og skaffa búnað fyrir úkraínskar konur í Úkraínuher.
Texti varnarsamningsins
Hér koma þýðingar á ákvæðum sem er að finna í varnarsamningnum sjálfum.
Í varnarsamningnum er vísað í þingsályktunartillögu Alþingis sem var samþykkt 29. apríl 2024:
1.2. Skuldbinding Íslands til öryggis- og langtímastuðnings við Úkraínu er í samræmi við þingsályktunartillögu Íslands um stuðning við Úkraínu sem var samþykkt var á Alþingi þann 29. apríl 2024.
1.5. Ísland mun veita Úkraínu víðtækan og langtíma efnahagslegan, mannúðarlegan og varnartengdan stuðning í samræmi við þingsályktunartillöguna.
1.8. Skuldbinding Íslands til að styðja við Úkraínu yfir fimm ára tímabil þingsályktunartillögunnar staðfestir fyrir þegnum Úkraínu og alþjóðasamfélaginu að Ísland stendur með Úkraínu til langs tíma. Ísland mun halda áfram marghliða stuðningi við Úkraínu í tíu ár samkvæmt þessum samningi. Ísland minnir á að innlend fjárlagaákvæði gilda sem krefjast heimildar Alþingis.
Samningurinn er sagður gilda í 10 ár:
8.61. Þessi samningur öðlast gildi frá undirritunardegi og er gildur í tíu ár.
8.62. Aðilar geta ákveðið sameiginlega að framlengja þennan samning með tilkynningu ekki síðar en sex mánuðum fyrir lok tíu ára tímabilsins.
Í texta samningsins kemur eftirfarandi fram um fjárútgjöld Íslands til Úkraínu:
1.7. Á árunum 2022 og 2023 veitti íslenska ríkisstjórnin Úkraínu um það bil 2,9 milljarða ISK í efnahags- og mannúðaraðstoð og 2,6 milljarða ISK til stuðnings við varnir Úkraínu. Í þingsályktunartillögu hefur Ísland skuldbundið sig til að veita að lágmarki 4 milljarða ISK árlega á tímabilinu 2024-2028, háð fjárlögum Alþingis ár hvert. Heildarframlög, skipting milli hernaðarlegs- og borgaralegs stuðnings, og sérstakar úthlutanir, verða ákveðnar árlega.
Um þátttöku Íslands í skotfærakaupum Tékklands:
1.7. Árið 2024 veitti Ísland 2 milljónir evra [300 milljónir íslenskra króna] til tékkneska frumkvæðisins [Czech Initiative] um skotfærakaup fyrir Úkraínu.
Um stuðning Íslands við að byggja upp hergagnaiðnað Úkraínu:
3.26. Ísland mun vinna með Úkraínu við að byggja upp varnariðnað Úkraínu, eins og mögulegt er. Ísland mun styðja við að auka samþættingu á varnariðnaði Úkraínu við öryggis- og varnarmálakerfi NATO.
Um „stuðning Íslands við konur í Úkraínuher“ segir í texta samningsins:
3.31. Ísland er tilbúið að fjármagna, kaupa og afhenda varnartengdar birgðir og búnað. Ísland skuldbindur sig til að halda áfram stuðningi við flutninga á hergögnum og búnaði til Úkraínu frá bandalagsríkjum NATO með leiguflugvélum.
3.32. Til að mæta þörfum herkvenna Úkraínu hefur Ísland veitt fjármagn til kaupa á einkennisbúningum, skotheldum vestum og læknis- og hreinlætisvörum. Ísland mun halda áfram að styðja áætlanir sem miða að því að útvega búnað sérstaklega fyrir konur í öryggis- og varnarliði.
Fjallað var um þetta ásamt öðru í þætti á Samstöðinni: