Hraunflæðið getur gert áhlaup hvenær sem er en Bláa lónið vill opna sem fyrst

Framkvæmdastjóri Bláa lónsins vonast til þess að hægt verði að opna aftur í vikunni. Á sama tíma æðir hraunið fram í uppsöfnuðum áhlaupum og fór það þannig yfir Grindavíkurveg á laugardaginn. Hraunjaðarinn sem braust fram er nú aðeins í 700 metra fjarlægð frá lögnum HS Orku og gæti næsta áhlaup farið yfir þær. Á laugardag var gestum hótels Bláa lónsins og starfsfólki gert að yfirgefa svæðið vegna hraunáhlaupsins.

Þetta mynstur er ekkert nýtt. Í hremmingunum vegna Reykjaneselda hefur þessi staða núna margoft komið upp hvað varðar lokanir og rýmingar Bláa lónsins. Engu að síður er ljóst að ástandið hefur orðið sífellt staðbundnara við nágrenni fyrirtækisins. Einnig er ljóst að þetta síðasta gos hefði grandað miklum hluta Grindavíkur ef ekki hefði verið fyrir varnargarða, enda það stærsta sem átt hefur sér stað í þessari hrinu eldgosa. Gosið hefði allt eins getað komið upp nær Bláa lóninu og grandað því og ekkert sem hindrar það að næsta gos komi þar upp.

Því hafa margir spurt sig, hvernig í ósköpunum stendur á því að Bláa lónið fær nær fullt frelsi til þess að opna og loka í gríð og erg á nánast daglegum grundvelli. Eru stjórnendur fyrirtækisins að bera hag gesta sinna og starfsfólks fyrir brjósti, í ljósi þess að þrýstingurinn er stöðugur á það að drífa fólk aftur til vinnu og drífa gesti aftur á staðinn til að græða peninga? Óháð öryggi ástandsins?

Það eitt að lögregluyfirvöld og almannavarnir banni ekki hreinlega viðveru á svæðinu, svo sem þegar kallað er eftir neyðarrýmingu, þýðir ekki að svæðið sé öruggt. Hvort það sé feilspor af hálfu yfirvalda að láta fyrirtækjum í té svona mikið frelsi til að mögulega leggja líf fólks og heilsu í hættu, er því gild spurning.

Hins vegar er siðferðislega kennisetningin ljós, að bara þó þú megir eitthvað, þýðir það ekki jafnframt að það sé í lagi að þú gerir það. Það að eitthvað sé ekki beinlínis bannað, stendur ekki jafnfætis því að það sé af hinu góða.

Forsvarsmenn HS Orku segja nú að samkvæmt öllum áætlunum munu lagnir fyrirtækisins verða undir hrauni á næstu dögum. Þeir eru þó vongóðir um að lagnirnar muni þola það, þar sem þær hafa verið fergjaðar mjög með jarðvegslagi og háspennumöstur hafa verið varin með varnargörðum.

Hraunáhlaupin gerast skyndilega og geta rutt sér veg á óútreiknanlegan hátt. Uppsafnað vökvakennt hraunið getur legið undir svartri skorpu og virst eins það hafi staðar numið, en án viðvörunar getur skorpan brostið og glóandi hraunflæðið gleypt allt sem á vegi þess verður.

Þá er hraunflæðið í núverandi gosi nú þegar af stærðargráðu sem stenst engan samanburð við fyrri gos Reykjaneselda, magnið af hrauni er svo gífurlegt að það veit enginn hversu mikið magn getur flætt skyndilega í ýmislegar áttir. Í því ljósi má velta vöngum yfir vonum og áætlunum forsvarsmanna Bláa lónsins um að opna lónið aftur á næstu dögum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí