Íbúum Hafnarfjarðar muni fjölga um 40% á næstu tíu árum en algert ofnæmi fyrir byggingu íbúða

Uppfærð húsnæðisáætlun Hafnarfjarðarbæjar á vef HMS gerir ráð fyrir að íbúum bæjarins fjölgi um 24% á næstu fimm árum og 40% á næstu tíu árum og hefur bærinn því gert uppfærða áætlun um lóðaframboð. Áfram er ofnæmi fyrir því að byggja íbúðarhús beint.

Í sjálfu sér væru það stórfréttir ef að íbúum bæjarfélagsins fjölgi um fjórðung á aðeins fimm árum. Fyrir hvaða samfélag sem er á jörðinni væru það gríðarlega miklar samfélagsbreytingar. Sjá má slíkar breytingar nú þegar á Íslandi á marga vegu með gríðarlegri aukningu aðfluttra íbúa á síðustu árum, ekki síst í húsnæðiskreppunni, sem má auðvitað helst kenna yfirvöldum um sem hafa ekki búið í haginn með því að byggja nægt húsnæði árum saman. En einnig í auknum menningarárekstrum af ýmsu tagi, sem og vaxandi andúð á ferðamannaiðnaðinum.

Hvað húsnæði varðar erum við á Íslandi að upplifa sambærilegt sögulegt tímabil og þegar að hinir miklu fólksflutningar hófust úr sveitum og yfir í borgina, en á áratugum áður varð mikill íbúðaskortur vegna þessa. Sá skortur var þó skammvinnur miðað við núverandi ástand einfaldlega vegna þess að yfirvöld, samvinnufélög og fleiri hópar, hreinlega tóku sig til og byggðu, bæði óhagnaðardrifið húsnæði og fyrirbæri eins og Verkamannabústaði. Í dag er því öllu snúið á hvolf.

Gríðarlega erfitt er fyrir samvinnufélög að skipuleggja sig í dag. Í stjórnartíð Davíðs Oddssonar var regluverkið gert svo torfið, erfitt og flókið að það er nær ómögulegt fyrir samvinnufélög að starfrækja sig í dag án mikils fjárhagslegs stuðnings.

Ákveðinnar kaldhæðni gætir þar auðvitað, fyrir það fyrsta var Ísland bókstaflega byggt upp af samvinnufélögum víða um land, þannig að það form af félagi gerist ekki íslenskara. Hitt er að það var öfgafrjálshyggjustefna Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðismanna sem gerði regluverkið flóknara og erfiðara, ekki einfaldara, eins og postular þeirrar hugmyndafræði monta sig gjarnan af að vilja gera við „báknið“.

Davíð og félagar eru svo auðvitað líka ábyrgir fyrir því að leggja niður Verkamannabústaði og eyðileggja það góða verkefni.

Nýfrjálshyggjutíminn sem þeir innleiddu hér á landi er enn svo sterkur í meðvitund stjórnmálastéttarinnar að sjá má merki þess nær daglega, en sér í lagi þegar kemur að húsnæðiskreppunni sem nú geysar. Í húsnæðisáætlun Hafnarfjarðarbæjar er talað um gríðarlega fólksfjölgun á næstu árum, söguleg aukning á svo skömmum tíma. Hver eru áform bæjarráðs?

„Á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir allt að 3.993 íbúðir svo lóðaframboð mæti áætlaðri íbúðaþörf.“

Skapa skilyrði er hugtakið í ranni bæjaryfirvalda. Hvatar og hvatning til markaðarins heyrist oft úr röðum stjórnarliða á Alþingi þegar þau tala um þörf á „hvata“ og „skilyrði“ til markaðsaðila, svo sem byggingaverktaka og fasteignafélaga, til að byggja. En aldrei nokkurn tímann dettur sveitarfélaginu, ekki frekar en Alþingi og ráðuneytunum, að byggja bara sjálf.

Betra þykir og raunar sjálfsagt á tímum nýfrjálshyggjunnar, að útvista eigi alltaf þeim verkefnum. Eiginlega ekki einu sinni að útvista, því þá væri í það minnsta verið að skipuleggja verkefni með markvissum hætti. Hvetja er orðið. Hrópa út í tómið og segja „vinsamlegast einhver, byggið byggingar“ og vonast til að einhver hlusti og framkvæmi.

Þá eru ónefndar hinar miklu hagnaðarkröfur sem koma alltaf til sögunnar þegar markaðsaðilar gera nokkurn skapaðann hlut, sem drífa upp öll verð á endanum fyrir kaupendur og leigjendur.

Hafnarfjarðarbær býst því við fólksfjölgun á við stærstu breytingaskeið Íslandssögunnar, en hefur algert ofnæmi fyrir þeirri hugmynd að byggja eitt einasta hús sjálfur.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí