Erlendir veiðimenn sem hafa verið fastagestir sumar eftir sumar í íslenskum laxveiðiám, hafa gefist upp á dýrtíðinni hér á landi. Þeir búa sig nú undir síðustu heimsóknina til Íslands.
Viðskiptablaðið ræðir við sænskan veiðimann, Torbjörn Andersson sem hefur veitt samfellt á Íslandi í rúma þrjá áratugi.
Nú er komið gott, segir hann. Verð veiðileyfa í ár hér innanlands sé orðið alltof hátt .
„Það er orðið brjálæðislega dýrt að stunda laxveiði á Íslandi,“ segir Torbjörn og bætir við að aðeins hinir efnuðustu geti stundað laxveiði hér á landi.
Dæmi eru um að dagurinn kosti 700.000 krónur fyrir eina stöng.
Torbjörn segir að aðeins forstjórar erlendra fyrirtækja, bankamenn og sjóðsstjórar vogunarsjóða hafi ráð á að kaupa sér veiðileyfi í slíku ástandi.
„Ég get ekki látið bjóða mér þetta. Þar fyrir utan finnst mér algjör synd ef venjulegir Íslendingar hafa ekki efni á að veiða í eigin laxveiðiám.“
Torbjörn segir hægt að stunda laxveiði í Noregi fyrir brot af kostnaðinum á Íslandi. Þar geti menn líka átt von á að setja í 30 punda lax. Þá bendir hann á að í Skotlandi sé miklu ódýrara að stunda laxveiði á Íslandi.
Mikil umræða hefur orðið um okur og dýrtíð í íslenskri ferðaþjónustu. Okrið fælir fjölda ferðamanna frá landinu í sumar. Veit Samstöðin dæmi um að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafi nú þegar lent í rekstrarvandræðum þar sem tekjur sumarsins eru mun lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir.