Jódís óttast að „hið illa“ – systurflokkar Sjálfstæðisflokksins – komist til valda

„Ég hef engin áhrif þegar kemur að kosningum um víða veröld og get lítið annað gert en treyst að hið góða beri sigur úr býtum. Það kann að hljóma ankannalega að skilgreina „manifestó“ hægri aflanna sem eitthvað illt en ég get ekki litið öðruvísi á það.“

Svo lýkur Jódís Skúladóttir, þingkona Vg, aðsendri grein sem birtist á vef Heimildarinnar. Í greininni reynir hún að færa rök fyrir því að kosningar víða um heim allan á þessu ári séu í raun barátta milli góðs og ills. Kosningar í raun barátta sem leiði til í ljós hvort hið illa komist til valda í löndum svo sem Frakklandi, Bandríkjunum og mörgum öðrum. Vandi Jódísar er hins vegar sá að í flestum tilvikum  þá er hið illa, í hennar heimsmynd, systurflokkar Sjálfstæðisflokksins.

Og þó Jódís hafi líklega sannarlega lítil áhrif á kosningar erlendis og afleiðingar þeirra, þá þarf hún ekki að vera svo hógvær hvað varðar Ísland. Hún er í raun ein örfárrra sem gæti í dag komið í veg fyrir að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra áfram í ríflega ár eða svo. En líkt og fyrr segir þá á flokkur forsætiráðherra í miklu samstarfi við „hið illa“ sem Jódís óttast svo erlendis. Skemmst er að benda á að Sjáflstæðisflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn hafa átt í nánu samstarfi frá stofnun lýðveldisisns. Svipaða sögu má segja um marga þá flokka í Evrópu sem Jódís óttast að komist til valda.

Nokkrar undantekningar eru frá þessu, til að mynda í Bretlandi þar sem kölski býður sig fram til þing undir fána nýs flokks, Reform UK. Gefum Jódísi orðið aftur en hún hefur þetta um flokkkinn að segja: „Þjóðernissinnaði hægriflokkurinn Reform UK, sem mætti snara sem  Umbótaflokkur Bretlands, með Nigel Farage í broddi fylkingar, er á fordæmalausri siglingu upp á við. Flokkurinn mælist ýmist á milli íhaldsins og verkamannanna, eða í öðru sæti. Hverju eru Farage og félagar hans að lofa kjósendum? Þeir ætla að laga efnahaginn, stöðva innflytjendaflæði, skera niður ríkisbáknið og endurskoða heilbrigðiskerfið frá grunni.“

En Jódís er ekki alveg grunlaus, eitthvað kannast hún við þessa stefnu. Enda væri verulegt tilefni til áhyggna annars. Þetta er jú nánast orðrétt stefna Sjálfstæðisflokksins, flokks sem Jódís persónulega styður til valda á Íslandi. Raunar má segja að meiri hljómgrunnur sé meðal Sjálfstæðismanna og Reform UK, en breska Íhaldsflokksins, sem er systurflokkur Sjálfstæðismanna í Bretlandi. Það hefur líklega farið fram hjá Jódísi að fulltrúi flugnahöfðingjans í Bretlandi, Nigel Farage, er afar vinsæll meðal hennar nánustu samstarfsmanna.

Því verður þó ekki neitað að kosningar á þessu ári verða afar mikilvægar um heim allan á þessu ári. Ísland er þó ekki þar á meðal, enn þá í það minnsta. En móti kemur að við Íslendingar eru svo heppin að vera búin að svara þeirri áleitu spurningu: á að hleypa kölska í kjötkatlana? Svar Jódísar og flokksfélaga hennar var, líkt og flestir vita: „Já, ef við fáum að vera með“. Á þar næsta ári geta Íslendingar þó svarað því hvort hjónabandið við myrkrahöfingjana hafi gefið góða lukku. En hvað er til ráða annað en bandalag við Belzebub? Jódís gefur eitt svar við því í lok greinarinnar:

„Að beita kúgun, ofbeldi og mismunun er illvirki. Einu vopnin sem við eigum í baráttunni gegn þessum vondu dystópísku plönum eru kærleikur, samkennd, viska og samfélagsvitund. Það eru reyndar ansi öflug vopn, sem þó skaða engan.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí