Leiguskjól og myIgloo.is hvetja leigusala til hærri trygginga og hærra leiguverðs

Ein allra vinsælasta leiguauglýsingasíða á Íslandi er hin svo titlaða Igloo, eða myigloo.is. Fyrirtækið er vettvangur fyrir leigusala til að auglýsa íbúðir til leigu og hefur vaxið mikið á undanförnum árum þannig að allt að 80% leiguauglýsinga fara í gegnum vefinn.

Flestir leigjendur þekkja orðið síðuna vel en fæstir átta sig þó á því að fyrirtækið ýtir undir hærri leiguverð á leigjendur með því að hvetja bæði til verðhækkana og hærri tryggingaverðs.

Vefsíðan Igloo er í eign og rekstri fyrirtækisins Leiguskjóls, sem býður upp á leigutryggingar fyrir notendur Igloo. Leiguskjól var stofnað af Vigni Má Lýðssyni og Vilhjálmi Andra Kjartanssyni, en hvor um sig á rúmlega 24 prósenta hlut í fyrirtækinu. Restinni er skipt á milli allavega tíu lífeyrissjóða og einstaklinga í smáprósentuhlutum. Fyrirtækið starfar náið með Arion banka og mbl.is.

Lengi vel hafa umræður sprottið upp á milli leigjenda á samfélagsmiðlum sem gagnrýni Igloo fyrir há leiguverð. Gjarnan hefur umræðan þróast þannig að sumir hneykslast á meðan að aðrir segja Igloo aðeins vera vettvang, það sé ekki þeim að kenna hvað leigusalar rukki fyrir íbúðir sínar.

Að sumu leyti er það rétt, auðvitað er það ákvörðunarvald leigusala að setja verð eins og þeim sýnist.

3 mánuðir í tryggingafé „vinsælast“

Það þarf þó ekki dýpri rannsókn en svo að prófa að skrá eign í viðmót myIgloo.is til að sjá strax hvernig hvatar eru settir á verðhækkanir.

Á viðmótsskjánum þar sem tryggingagjaldið er stillt má sjá á eftirfarandi skjáskoti að einhverra hluta vegna er valmöguleikinn „3 mánuðir“ merktur sérstaklega með grænum stöfum sem segja „vinsælast“.

Flestir leigjendur skilja vel þá kvöl og pínu sem er að þurfa að búa við svo mikið sparifé að geta átt fyrir tryggingu, sparifé nota bene sem þarf að geta setið óáreitt í langan tíma. Það er ekki alltaf svo hlaupið að því.

Það er þó engin tilviljun, enda býður fyrirtækið Leiguskjól, sem á og rekur Igloo, upp á ábyrgð sem kaupa má af þeim og samstarfsaðila þeirra Arion banka, til að sleppa undan svo hárri tryggingagreiðslu. Það er því Leiguskjóli og Igloo í hag að beina sem flestum í þriggja mánaða tryggingu til að auka aðsókn í þjónustu sína.

Reikna út hærri leiguverð fyrir leigusala svo leigjendur borgi öll þjónustugjöld

Það sem öllu verra er þó eru ákveðin þjónustugjöld sem Igloo býður verðandi leigusala upp á. Í sjálfu sér er það ekki af hinu illa, nema fyrir tvær sakir.

Annars vegar er verð þeirra prósenta af rukkaðri leigu, þannig að því hærri leiga því dýrari er þjónustugjaldið.

Hins vegar, það sem gerir útslagið, er valmöguleiki á viðmótinu þar sem hægt er að merkja við að láta leigjandann (leigutakann) greiða fyrir þjónustupakkann. Ef hakað er við þann valmöguleika kemur út snyrtileg reiknivél sem lætur verðandi leigusala vita nákvæmlega hvað hann þarf að rukka leigjandann til að dekka algerlega kostnað þjónustupakkans, án nokkurs kostnaðar fyrir sig. Hvetjandi þannig leigusala til að rukka hærri leigu til að forðast þann aukna kostnað.

Í þessu dæmi sem sjá má í skjáskotinu var upprunalegt verð stillt á 150 þúsund krónur. Ef full þjónusta er valin og hakað er við að „Leigutaki greiðir þjónustugjald“, má sjá hvernig lítil reiknivél spýtir út endanlegu leiguverði sem rukka þarf leigjanda til að leigusali þurfi ekki að greiða neitt.

Það er enn og aftur, endanlega á ábyrgð leigusala að setja verðlagninguna, enginn neyðir þá til að demba öllum kostnaði á leigjendur. En það er þó ljóst að Leiguskjól með viðmóti sínu á myIgloo.is setur ákveðna hvata og freistingu fram til að gera leigusölum auðveldara um vik að hegða sér þannig, því þar liggur gróðavon Leiguskjóls.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí