Það er líklega ekki mörg fyrirtæki á Íslandi sem hafa verra orð á sér og ísraelska greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd. Meðan önnur fyrirtæki reyna að vekja á sér athygli, svo sem með auglýsingum, þá virðist Rapyd reyna að fela slóð sína. Óvinsældir fyrirtækisins má rekja til þessa að Ariel Shtilman, eigandi þess, lýsti yfir stuðningi við þjóðarmorð í Palestínu síðastliðið haust.
Innan Facebook-hópsins Sniðganga fyrir Palestínu – BDS Ísland er vakin athygli á því að fyrirtækið sé nú farið að nota önnur og eldri nöfn í viðskiptum en „Rapyd“, svo sem Valitor og Korta. „Feluleikurinn heldur áfram. Rapyd hafa nú brugðið til þess örþrifaráðs að notast við gömlu fyrirtækjaheiti þeirra íslensku félaga sem þau gleyptu. Valitor og Korta. Ekki láta neinn blekkja ykkur með að segja að „Valitor sé Straumur“, það er einfaldlega ekki rétt. Straumur er vel merktur sem færsluhirðir þeirra kúnna sem þau þjónusta,“ fullyrðir stuðningsmaður sniðgöngu.
Sá birtir einnig mynd, máli sínu til stuðnings, sem sjá má hér fyrir neðan og skrifar: „Hér eru góð dæmi um blekkingarnar sem fyrirtækin sem eiga í hlut, ásamt Rapyd, eru að spila. Ormsson kallar Rapyd „Korta“ – Þó svo að „Korta Payments ehf.“ sé til í dag, endurnefnt eftir söluna til Rapyd, þá er færsluhirðing ekki hluti af þeirra starfsemi. Valitor er eingöngu til sem nafn sem Rapyd notast við í dag til að villa á sér heimildir. Valitor er ekki til. Væri álíka og Pizzan færi að kalla sig „Hróa Hött“ til að laða að gamla kúnna. Aftur, Valitor er EKKI Straumur, og það eru mörg fyrirtæki sem kó-a svona með Rapyd til að blekkja viðskiptavini sína.“