„Sigur Höllu Tómasdóttur verður um leið sigur MBA-gráðunnar, leiðtogafræða, viðskiptafræði og mannauðsstjórnunar. Þetta tekur við af sagnfræðinni, stjórnmálafræðinni, íslenskunni og bókmenntafræðunum í æðsta virðingarembætti landsins, út frá því sem verið hefur og stefndi í. Nú kveður við nýjan tón og hefst táknrænt nýtt tímabil,“ segir Jón Trausti Reynisson, fyrrverandi ritstjóri Stundarinnar og nú framkvæmdastjóri Heimildarinnar, um þau tíðindi að Halla Tómasdóttir hafi verið kjörin forseti lýðveldisins.
Jón Trausti vísar til menntunar Höllu en hún er fyrsti viðskiptafræðingurinn á Bessastöðum. Halla hefur BS gráðu í viðskiptafræði frá Auburn háskólanum í Montgomery í Alabama og MBA gráðu frá Thunderbird School of Global Management í Arizona. Hún sker sig óneitanlega nokkuð frá fyrri forsetum hvað þetta varðar. Guðni fráfarandi forseti er sagnfræðingur, Ólafur Ragnar er doktor í stjórnmálafræði og Vigdís lærði frönsku. Kristján Eldjárn var fornleifafræðingur meðan Ásgeir Ásgeirsson var guðfræðingur. Fyrsti forseti Íslands, Sveinn Björnsson, var lögfræðingur.