„Stjórnmálastéttir þjóna ekki lengur almenningi heldur peningaguðinum skilyrðislaust sem alltaf vill hámarka gróða sinn á kostnað sundraðs mannkyns. Úrkynjun stjórnmálastéttanna er lýðræðinu hættuleg.“
Þetta segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, í pistli sem hún birtir á DV. Hún segir að hin íslenska stjórnmálastétt eigi það sameiginlegt með kollegum sínum á meginlandinu að vera í engum tengslum við raunveruleika almennra borgara.
„Hinn nýi evrópski aðall er stétt stjórnmálamanna sem starfar um alla álfuna án rauntengingar við almenning í Evrópu. Margt er það fólkið sem gegnir æðstu embættunum sem aldrei hefur deilt kjörum með venjulegu fólki á vinnumarkaði. Á Íslandi eigum við líka dæmi um stjórnmálafólk sem vegna vensla eða flokkuppeldis hefur hlotið ábyrgðarstöður í íslensku samfélagi og jafnvel aldrei haft annan starfa. Ísland er bara míkrómynd af heiminum,“ segir Steinunn og bætir við:
„Hinn evrópski stjórnmálaaðall á það sameiginlegt að lúta vilja konunga sem nú um mundir í okkar veröld eru þeir sem eiga allt. Fyrirtækja- og fjármagnseigendur.“
Pistil Steinunnar má lesa í heild sinni hér.