Svandís Svavarsdóttir, sem tók nýlega við innviðaráðuneytinu, boðar „trúverðugar aðgerðir“ gegn húsnæðiskrísunni á Íslandi í aðsendir grein í Morgunblaðinu í dag. Svandís eyðir þó ekki mörgum orðum í þær aðgerðir í pistlinum. Þess í stað kýs hún að ræða hve mikla samkennd hún hefur með leigjendum og þeim aðstæðum sem þeir þurfa að búa við. Einu raunverulegu aðgerðirnar sem Svandís nefnir á nafn í pistlinum má í stuttu máli lýsa sem þeim sömu og hafa nú þegar verið reyndar, nema meira af þeim.
Þessar „trúverðugu aðgerðir“ eru að hækka húsaleigubætur og áframhaldandi greining á markaðinum. Orðrétt skrifar Svandís: „Í mínu ráðuneyti er mikil áhersla lögð á að skapa skilyrði til þess, m.a. með því að greina hvernig styðja má uppbyggingu húsnæðis á viðráðanlegu verði með stofnframlögum og hlutdeildarlánum.“ Svo segist Svandís ætla að „ljúka við að auka húsnæðisöryggi leigjenda og setja skýrari ramma um fyrirsjáanleika leigufjárhæða í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda“, en útskýrir ekki nánar hvernig það verði framkvæmt.
Pistil Svandísar lesa í heild sinni hér.
Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur áður bent á að aðgerðir sem þessar séu í raun bjarnargreiði við leigjendur, í stað þess að hafa áhrif á framboðshliðina þá séu þær allar á eftirspurnarhliðinni. Með öðrum orðum, áherslur stjórnvalda á Íslandi snúast á endanum um að hjálpa fólki að kaupa dýrar íbúðir, í stað þess einfaldlega að byggja fleiri íbúðir. Ólafur orðaði það svo í september:
„Stór hluti af því að vinna bug á langtíma verðbólgu á Íslandi er að breyta hvötum efnahagskerfisins þannig að meira sé byggt af íbúðum frekar en að hjálpa fólki að kaupa íbúðir á sífellt hærra verði. Draga á úr opinberum afskiptum á eftirspurnarhliðinni, s.s. niðurgreiddum lánum, skattaafsláttum til fyrstu fasteignakaupa, skattaafslætti til fólks sem notar lífeyrisssparnað til að greiða niður íbúðalán, osfrv.“
Að sögn Ólafs, þá er lausnin við vandanum talsvert einfaldari en núverandi aðgerðir: „Það á að byggja svo mikið af leiguhúsnæði að mikill fjöldi fólks vill vera á leigumarkaði þökk sé stöðugu og öruggu framboði af leiguhúsnæði á fyrirsjáanlegum kjörum.“