Vitundarvakning virðist vera orðin fyrir þeirri augljósu staðreynd að húsnæðiskostnaður sé megindrifkraftur að baki verðbólgunnar hér á landi. Aðrir augljósir þættir verandi verðhækkanir fyrirtækja og yfirvalda á vörum og þjónustu.
Leigumarkaðurinn er ekki síst vettvangur slíkra verðbólgumyndandi hækkana, sér í lagi þegar að 75% af leigusamningum í leiguskrá HMS fyrir júlí mánuð eru vísitölutengdir.
Tenging leigusamninga við vísitölu neysluverðs virðist vera orðið algert norm hvað slíka samninga varðar, en eðli slíkrar tengingar er að leiguverðin hækka stöðugt í hverjum mánuði. Vísitala neysluverðs er eitt helsta mælitækið á verðbólguna og því eru leigusamningar sem tengja verðlag sitt við hana fastir í einhvers konar vítahring af hækkunum vegna eigin hækkana.
Mánaðarlegar hækkanir á verði leigu, vegna vísitölutengingarinnar, ýta því bæði undir verðbólguna og halda henni við. Það bitnar svo auðvitað fyrst og fremst á leigjendum sem eiga alltaf minna aflögu í hverjum mánuði fyrir vikið og því eykur það líka á getu þeirra til að kaupa vörur og þjónustu, sem aftur veldur samdrætti sem aftur á það til að valda verðhækkunum og þannig verðbólgu. Aðrar hækkanir á markaði vegna græðgisbólgu fyrirtækja og álögum ríkisins og sveitarfélaga hækka einnig vísitöluna, sem aftur hækkar leiguverðin.
Ímynda má sér Miðgarðsorm sem étur stöðugt eigin hala.
Tilkynning HMS um málið segir lögaðila og fyrirtæki á leigumarkaði nota vísitölutengingu mun frekar en einstaklinga. Það á við um óhagnaðardrifin sem og hagnaðardrifin leigufélög.
„Það þýðir að almennar verðlagshækkanir renna beint út í leiguverð að öllu leyti í stórum hluta leigusamninga“, segir í tilkynningunni.