81% ánægðir með Guðna eftir síðasta ár hans í embætti – Aðeins 59% sögðu það sama um Ólaf Ragnar

Ný skoðanakönnun frá Maskínu sýnir gríðarlega mikla ánægju með störf fráfarandi forseta lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannessonar. 81% svarenda voru ánægð með störf Guðna eftir síðasta ár hans í embætti forseta. Aðeins 59% sögðu það sama um síðasta ár Ólafs Ragnars Grímssonar í embætti.

Guðni Th. hefur frá fyrstu tíð verið afar vinsæll og vel liðinn forseti og hefur þar ekki skaðað að embættistíð hans hefur helst til lítið verið lituð af flokkapólitík og deilum við Alþingi, eins og átti við um Ólaf Ragnar.

Guðni hefur þó beitt sér í ýmsum samfélagsmálum, ekki síst undanfarið í málefni Palestínu eins og hann sýndi þegar hann mætti á samstöðutónleika í Háskólabíó með konu sinni Elizu Reid, kvöldið sem Eurovision keppnin var haldin. Þá hefur Guðni líka allar götur lagt sig fram um að tala fyrir málefnum barna og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu og erfitt er að segja annað en að hann skilji eftir sig ásýnd mikils mannvinar sem forseti.

Mælingin hefur verið gerð hvert ár Guðna í embætti og síðustu sex ár Ólafs Ragnars í embætti og byrjaði Guðni árið 2016 með 71% ánægjuhlutfall. Það fór strax í 81% og 82% næstu tvö árin og hélst í tæplega 80% lengi vel en tók dýfu yfir Covid árin og fór lægst í 72% árið 2022. Það hefur hins vegar risið hratt síðan, var 76% á síðasta ári og 81% nú á síðasta ári hans í embættinu. Þar af eru 55,3% mjög ánægð og 25,4% frekar ánægð.

Þá er mjög lágt hlutfall af fólki sem var óánægt með störf hans, eða aðeins 6% og fór það hæst í Covid upp í 9%. Óánægja með störf Ólafs Ragnars voru því til samanburðar vel rúmlega 20% allra jafna og fór hæst í 24% árið 2014 en minnkaði í 18% óánægju síðasta ár hans í embætti.

Það er því öruggt að segja að Guðni Th. sé talsvert vinsælli forseti en Ólafur Ragnar var talinn á sínum tíma.

Í könnuninni er svarendum skipt niður eftir flokkum og öðrum lýðfræðilegum breytum. Konur voru ívið ánægðari með forsetann en karlar, en munurinn þó lítill, 57,7% á móti 53,1%. Yngra fólk svaraði síður að það væri mjög ánægt en var hæst í svörum sem frekar ánægt með Guðna. Annars er ljóst að í öllum aldurshópum sem og öllum landshlutum, öllum tekjuhópum og menntunarstigi var stærsti svarendahópurinn alltaf mjög ánægður.

Það sama á við um flokkadrætti, kjósendur Miðflokksins voru sístir til að vera mjög ánægðir með Guðna, eða aðeins 32,1% og kjósendur Samfylkingarinnar áberandi ánægðastir eða 71,4%. Kjósendur allra flokka voru þó í meirihluta ánægðir með störf Guðna, þegar hlutföll mjög ánægðra og frekar ánægðra eru lögð saman.

Úr embætti forseta Íslands fer því afar vinsæll forseti sem nýtur mikillar hylli allra hópa í samfélaginu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí