Fjöldamörg ný baðlón í bígerð – Hið nýja gullgrafaræði?

Heimildin birtir í dag úttekt á hinum ýmsu áformum um ný baðlón, sum sem eru nú þegar í uppbyggingu og önnur sem eru áformuð. Virðist vera að nýtt æði í íslenskum ferðamannaiðnaði sé um að ræða. Á sama tíma er samdráttur í fjölda gesta til landsins og íslenska hægrið varar stöðugt við yfirvofandi orkuskorti.

Samstöðin hefur áður fjallað um metnaðarfull áform Björns Leifssonar, eiganda World-Class, um byggingu risavaxins lúxushótels og baðlóns á Fitjum á Reykjanesi. Þau áform eru byrjuð í uppbyggingu ásamt þremur öðrum; Árböðin við bakka Hvítár í Árnessýslu, Fjallaböðin í Þjórsárdal og Reykjaböðin í Hveragerði. 12 önnur lón eru enn á hugmyndastigi en fyrirhuguð, víða um land.

Það kemur fram í úttekt Heimildarinnar að þessi lón eru helst á vegum ýmissa þjóðþekktra fjárfesta og fjármagnseigenda. Þar á meðal eru Árni Magnússon, fyrrverandi félagsmálaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn, sem stendur að baðlóni á Reykjanesi sem heita á Mermaid Geothermal Seaweed Spa.

Ólafur Ólafsson, fyrrverandi einkavæðari Búnaðarbankans, meirihlutaeigandi Kaupþings fyrir Hrun og einn þeirra sem fangelsaðir voru fyrir glæpi sína eftir Hrun. Hann hyggur á meiriháttar framkvæmdir í Borgarnesi, þar á meðal nýtt miðbæjartorg með nýju hóteli og baðlóni.

Í Önundarfirði hyggst Runólfur Ágústsson og Áslaug Guðrúnardóttir byggja baðlón. Þau hjónin eru eigendur Þorpsins sem hagnaðist gífurlega á lóðabraski með Ártúnshöfða eins og Samstöðin fjallaði um nýlega.

Sá sem keypti lóðina á Ártúnshöfða, hann Kristján Gunnar Ríkharðsson, hyggst einnig byggja baðlón.

Rætt er við sveitarstjórnarfulltrúa í úttekt Heimildarinnar og kemur fram í máli þeirra að áformin séu víða studd áfram af stjórnum sveitarfélaga sem virðast líta á baðlón sem trygga fjárfestingu. „Það vilja allir gera það“, segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri í Bláskógabyggð.

Fjölmörgum þessum baðlónum fylgja framkvæmdir á stórum hótelum og ljóst er að búist er við gróðavænum fjárfestingum með þessum áformum.

Gott og vel. Hins vegar virðist á engum tímapunkti hafa farið fram umræða um það hvort einkafyrirtæki eigi óhindraðan rétt á notkun alls þessa heita vatns sem baðlón munu krefjast. Mikil umræða hefur farið fram undanfarin misseri um orkuskort, hvort hann sé raunverulegur fyrir það fyrsta og svo hvernig skuli fara að því að mæta þeirri áskorun. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, talaði þannig mikið fyrir því að nýta þyrfti betur orkuna sem við höfum, því mikið af henni tapist í ónýtum og úr sér gengnum innviðum. Annað væri forgangsröðun, þar sem heimilin þyrftu að hafa forgang, en heimili landsins eru notendur aðeins minnihluta orkunnar hér á landi.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra Sjálfstæðisflokksins, hefur lengi talað fyrir nauðsyn þess að virkja meira og ásamt dyggu stuðningsfólki sínu á hægri væng stjórnmálanna hefur málað upp mikinn og yfirvofandi orkuskort.

Það er því fullkomlega furðulegt að nákvæmlega engar hömlur skuli vera á endalausri fjölgun baðlóna til ferðamanna. Sér í lagi þegar það mun óneitanlega bitna á almenningi þessa lands með hærra orkuverði, á náttúru þessa lands með fleiri virkjunum og borholum og á menningastólpum íslensks samfélags eins og almenningssundlaugunum, en umræða um lokun þeirra í versta frostinu á veturna hefur þegar hafist. Aldrei er hins vegar rætt um þá staðreynd að almenningssundlaugar, rétt eins og heimilin í landinu, nota lítið af orkunni í heild, heldur er stóriðjan, fyrirtækin og nú baðlónin þar fyrirferðamest.

Þá er þess vert að geta og hafa í huga að heita vatnið á Íslandi er ekki óþrjótandi auðlind. Heitavatnsgeymarnir sem liggja á víð og dreif í jarðskorpu landsins eru takmarkaðir og alls ekkert víst að hægt sé að endurnýja þá á tímaskala sem hentar æviskeiðum mannvera.

Rætt var um baðlónin og margt fleira í nýjast þætti Rauða borðsins:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí