Á þriðjudag gerði Ísraelsher sprengjuárás á skóla í bænum Abassan austur af borginni Khan Younis í suðurhluta Gasa. Samkvæmt CNN var skólinn fullur af flóttamönnum sem voru að leita sér skjóls. Árásin varð 31 óbreyttum borgurum að bana, þar á meðal 8 börnum, og 53 særðust.
Myndband Al Jazeera sýnir börn vera að spila fótbolta hjá skólanum þegar sprengjan springur:
Vopnasérfræðingar segja í viðtali við CNN að á vettvangi hafi fundist leifar af 250 punda sprengju, svokallaðri GBU-39, sem er af bandarískri gerð.
GBU-39 er svokölluð precision-guided glide bomb eða „nákvæmnisstýrð svifsprengja“, sem er varpað af herþotum eins og F-15. Þannig að það verður að teljast ansi ólíklegt að um slysaskot hafi verið að ræða.
GBU-39 sprengjur hafa áður verið notaðar í öðrum fjöldamorðum Ísraelshers á Gasa, þar á meðal í árás sem var gerð í júní á skóla Sameinuðu þjóðanna, og árás í maí á tjaldbúðir í Rafah. Flestar sprengjur sem Ísraelsher varpar á Gasa eru skaffaðar af Bandaríkjunum.
Samkvæmt skýrslu sem var gefin út í mars af Stockholm International Peace Research Institute (SIPRI), fær Ísrael 99% af öllum sínum vopnum frá Bandaríkjunum og Þýskalandi: „Á árunum 2019–2023 stóðu Bandaríkin fyrir 69% og Þýskaland fyrir 30% af öllum vopnaflutningum til Ísrael“.