Eitt af fréttamálum sumarsins virðist vera niðursveifla og samdráttur í ferðamannaiðnaðinum. Talsmenn iðnaðarins hafa af því miklar áhyggjur og hafa þrýst á stjórnvöld til að freista þess að fá frá yfirvöldum mikla auglýsingaherferð fyrir fé skattgreiðenda, sem vakið hefur mikla gagnrýni. Fjölmargar framkvæmdir eru í farvatninu á sama tíma um byggingu nýrra, stórra hótela, vítt og dreift um landið, en á sama tíma hægist á uppbyggingu íbúða, í miðri húsnæðiskreppu.
RÚV fjallaði um málið og ræddi meðal annars við framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, sem segir slíkar framkvæmdir vera framtíðarfjárfestingar áratugi fram í tímann. Ekki sé hægt að horfa á sveiflur í fjölda ferðamanna innan 18-24 mánaða við slíka áætlanagerð.
Í umfjöllun RÚV er sagt frá hinum ýmsu hótelum, sum eru nýopnuð og önnur í framkvæmd. Á Reynivöllum við Jökulsárlón, á Orrustustöðum og í Kerlingafjöllum eru hótel þegar nýopnuð og unnið er að lúxushóteli við Grenivík í Eyjafirði, sem og framkvæmdir í Reykjavík á reit gamla sjónvarpshússins við Laugarveg. Frekari áform eru mislangt komin áfram víða um land líka. Samstöðin hefur þannig fjallað um sprengingu í byggingu ýmissa baðlóna víða um land, en samhliða þeim er hugað að byggingu nýrra hótela í mörgum tilvikum. Þannig hefur Björn Leifsson, eigandi World Class líkamsræktastöðvanna, sem dæmi í hyggju að byggja lúxushótel og stórt baðlón því tengt á Reykjanesi.
Samhengið er allt eins og fyrri daginn. Það eitt að samdráttar í fjölda ferðamanna megi merkja sterklega þetta sumarið og margir hóteleigendur sem og aðrir aðilar í ferðamannaiðnaði hafi af því miklar áhyggjur er út af fyrir sig mjög athyglisverð staða. Að gullgrafaræðið í ferðamannaiðnaði doki ekki við jafnvel þótt iðnaðurinn sé í kröggum, ef marka má talsmenn og fulltrúa þeirra undanfarið í það minnsta.
Hitt er að nú ríkir húsnæðiskreppa eins og alþjóð veit vel. Á sama tíma og fjárfestingar og umsvif á byggingamarkaði hafa aukist undanfarið og bygging atvinnuhúsnæðis hafi aukist þá hefur uppbygging íbúða bókstaflega dregist saman og útlit fyrir að ekki takist að byggja til að mæta uppsafnaðri þörf ársins, frekar en síðustu ár.
Það gefur kannski ekki auga leið að þessi tvö atriði séu tengd, enda eru þau ekki oft tengd saman í umfjöllun meginstraumsmiðla. En staðreyndin er sú að ríkið jafnt og sveitarfélögin hafa öll farið sömu leið í húsnæðismálum, en það er markaðsleiðin. Lóðir eru settar á uppboð eða útdeilt og þá til markaðsaðila fyrst og fremst, hæstbjóðenda með öðrum orðum. Hvatar og skilyrði og hvatning eru stikkorðin sem stjórnmálafólk notar gjarnan til að lýsa aðferðum sínum, en í grunninn er verið að leggja það í hendur markaðsaðila að byggja upp húsnæði.
Vandinn er sá að það er takmarkað magn af fyrirtækjum og verktökum á byggingamarkaði og þeir fara náttúrulega þá leið að taka við verki hæstbjóðanda líka, í flestum tilvikum. Það þýðir að uppbygging hótela, baðlóna og fleiri innviða túrismans er í beinni samkeppni við þá aðila sem vilja byggja íbúðir og hinir síðarnefndu eru að tapa þeim slag að því er virðist. Þessu virðast yfirvöld fagna ef eitthvað er, en Reykjavíkurborg hefur hampað uppgangi í hótelrekstri undanfarið og hvatti þannig byggingaraðila nýrra hótela til að byggja þau meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu.
Það er því staðan að á meðan að fjárfestar yfirbjóða á byggingamarkaði til að byggja gróðatækifæri í ferðamannaiðnaði fyrir ferðamenn sem vilja sífellt færri koma til landsins vegna okurverðlags þá er byggt minna af íbúðahúsnæði í staðinn. Íbúðaverð hækka sífellt á meðan, leiguverð hækka fimmfalt meira en verðbólgan á milli mánaða og skortur á húsnæði gerir ungu fólki á Íslandi lífið svo leitt að það er hætt að eignast börn. Það verður þeim kannski huggun harmi gegn að geta skellt sér samt í baðlón á rándýru lúxushóteli sem stendur allra jafnan tómt, á meðan að samfélagið hrynur í kringum það.