Ný stefnuskrá samþykkt á landsfundi Repúblikana – heita stuðningi við Ísrael og að flytja úr landi mótmælendur sem styðja Palestínu

RNC-2024

Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum hefur samþykkt nýja stefnuskrá fyrir landsfundinn 2024 sem er haldin dagana 15. til 18. júlí. Í henni er lofað stuðningi við Ísrael og að flytja stuðningsmenn Palestínu úr landi sem hafa verið að mótmæla þjóðarmorðinu á Gasa á háskólalóðum í Bandaríkjunum.

„Við munum standa með Ísrael og leita friðar í Miðausturlöndum,“ segir í stefnuskránni.

Þá er einnig talað um að „sporna gegn Kína“ („countering China“).

Í stefnuskránni segir orðrétt með stórum stöfum:

DEPORT PRO-HAMAS RADICALS AND MAKE OUR COLLEGE CAMPUSES SAFE AND PATRIOTIC AGAIN

Mótmælendur (sem hafa verið að mótmæla þjóðarmorði Ísrael á Gasa) eru sem sagt sagðir vera „róttæklingar“ og „fylgismenn Hamas“. Háskólalóðirnar þar sem mótmælin hafa átt sér stað eru sagðar vera „óöruggar“ og Repúblikanar tala um að „make our college campuses safe again“ (að hætti MAGA).

Þessi klausa í stefnuyfirlýsingunni er mögulega vísan í lagafrumvarp sem þingmaður Repúblikana frá Tennessee, Andy Ogle, lagði fram í maí, sem kveður á um að brottflytja mótmælendur gegn Ísrael til Gasa (bókstaflega). Fox News greinir frá þessu. Hægt er að sjá upplýsingar um lagafrumvarpið hér (þó að texti frumvarpsins hafi ekki verið birtur).

Andy Ogle, þingmaður Repúblikana, lagði fram frumvarp um að brottflytja mótmælendur á háskólalóðum til Gasa.

Þegar hann var spurður um þetta sagði Andy Ogle, flutningsmaður frumvarpsins:

Ef þú styður hryðjuverkasamtök og tekur þátt í ólöglegri starfsemi á háskólalóðum, ættir þú að fá að smakka á eigin meðali. Ég þori að veðja að þessir stuðningsmenn Hamas myndu ekki endast í einn dag [á Gasa]. En við skulum gefa þeim tækifæri til þess að prófa það.

Repúblikanar hafa lagt sig talsvert fram að vera enn meiri stuðningsmenn Ísrael heldur en Demókratar í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Þingmenn Repúblíkana hafa gagnrýnt Biden forseta harðlega frá hægri, þrátt fyrir fullan stuðning ríkisstjórnar hans við áframhaldandi þjóðarmorð á Gasa. Repúblikanar hafa sagt Biden ekki senda nóg af vopnum til Ísrael.

Trump eindreginn stuðningsmaður Ísrael

Trump hefur sjálfur sakað Biden um að „yfirgefa Ísrael algjörlega“ („totally abandoned Israel“) og hefur gefið til kynna að hann muni styðja herferðina á Gasa enn frekar. Samkvæmt The Times of Israel sagði Trump einnig að „gyðingar í Bandaríkjunum sem kjósa Demókrata eða Biden þurfa að fara í læknisskoðun“ (“Any Jewish person that votes for a Democrat or votes for Biden should have their head examined“).

Í viðtali við Fox & Friends í mars sagði Trump að Ísrael ætti að „klára vandamálið“ á Gasa („finish the problem“). Í kappræðunum þann 27. júní gagnrýndi hann Biden fyrir að styðja ekki Ísrael nógu mikið, og sagði að Biden ætti að „leyfa þeim [Ísrael] að halda áfram, og leyfa þeim að klára verkið“ („you should let them go, and let them finish the job“).

Hvað þýðir það eiginlega að „klára verkið“ á Gasa? Að drepa alla Palestínumenn? Maður spyr sig.

Í mars sagði Trump í viðtali við dagblaðið Israel Hayom að Ísrael hefur gert mistök með því að deila of mikið af myndum og myndböndum af eyðileggingunni sem þeir hafa valdið á Gasa. Hann segir þetta vera ástæðuna fyrir því að Ísrael hefur misst svona mikinn stuðning á alþjóðlegum vettvangi. Hann vill greinilega ekki sýna morðherferðina í beinni, heldur halda henni leyndri á sama tíma og þeir „klára verkið“.

Ríkisstjórn Trump var mjög hliðholl Ísrael þegar hann var við völd (á árunum 2017 til 2021), og framfylgdi mörgum stefnumálum sem miðuðu að því að viðurkenna ólöglega landtöku Ísrael. Árið 2019 viðurkenndi Trump-stjórnin hernám Ísrael á Golanhæðum (sem Ísrael hertók af Sýrlandi árið 1967 og innlimaði formlega árið 1981), og lýsti því yfir að landnemabyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum brytu ekki í bága við alþjóðalög (þrátt fyrir að vera skýrt brot á alþjóðalögum og sáttmálum).

Þar á undan, árið 2017, hafði ríkisstjórn Trump flutt bandaríska sendiráðið frá Tel Aviv til Jerúsalem, og þar með viðurkennt Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael (en austurhluti Jerúsalem var hertekinn af Ísrael árið 1967 og borgin á að vera skipt milli Ísraelsmanna og Palestínumanna samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum). Þessi ákvörðun ríkisstjórnar Trump var því mikilvægt skref í áttina að því að viðurkenna hernám og innlimun Ísrael á austurhluta Jerúsalem (sem á samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum að tilheyra Palestínu).

Trump með Netanjahú og utanríkisráðherrum Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmanna að skrifa undir Abraham Accords árið 2020.

Trump-stjórnin var jafnframt með svokallaða „friðaráætlun“ sem miðaði að því að leyfa Ísrael að innlima formlega stóran huta af Vesturbakkanum (þau svæði þar sem þeir hafa byggt landnemabyggðir). Trump hafði einnig frumkvæði að hinum svokölluðu Abraham Accords, samningum sem miðuðu að því að Ísrael tæki upp eðlilegt stjórnarsamband við Arabaríki eins og Sameinuðu arabísku furstadæmin og Konungsríkið Barein.

Jared Kushner, tengdasonur Trump, sem var aðalmaðurinn í ríkisstjórn hans í málum sem varða Ísrael og Miðausturlönd, sagði nýlega (í mars) að „lóðirnar við hafströndina á Gasa gætu verið mjög verðmætar“ og að „Ísrael ætti að flytja Palestínumenn frá Gasa yfir í Negev eyðimörkina“.

Þá virðist Trump vera í nánum samskiptum við Miriam Adelson, ekkju ólígarkans Sheldon Adelson, sem var á tímabili einn ríkasti maður heims og hefur verið fyrirferðamesti styrktaraðilinn í hinu svokallaða Ísrael lobbý.

Trump sæmir Miriam Adelson orðunni „Presidential Medal of Freedom“ við athöfn í Hvíta húsinu árið 2018.

Adelson hjónin eru öfga-síonistar og voru mestu styrktaraðilar Trump og Repúblikanaflokksins í kosningunum árið 2016. Þau gáfu $90 milljónir til Trump árið 2020, og núna hefur Miriam Adelson lofað að gefa Trump $100 milljónir til viðbótar gegn því að ríkisstjórn hans muni styðja við innlimun Ísrael á Vesturbakkanum, samkvæmt ísraelska dagblaðinu Haaretz.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí