Óþarfi að setja milljarða af skattpeningum í að reyna að lokka fólk þegar þessar móttökur bíða

Það er hvergi nærri ný umræða þegar því er spáð að það hljóti að fara að koma að því að ferðamennirnir hætti að láta bjóða sér það sem bíður þeim oftast hér á landi. Hér er falleg náttúra en varla mörg dæmi um verra okur nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Í ár hafa þó verið ýmis merki um að þessi gamli spádómur sé að fara raungerast, í það minnsta að hluta. Talsmenn ferðaþjónustunnar hafa kallað eftir því að geysiháar upphæðir úr ríkissjóði fari í að auglýsa landið. Að draga örlítið úr okri virðist ekki vera inn í myndinni.

Þó reglulega sé greint frá því þeim móttökum sem ferðamenn fá á Íslandi, þá virðist ástandið versna ár frá ári. Það segir í það minnsta Steinar Sveinsson sem hefur starfað sem leiðsögumaður lengi. Hann lýsir því hvernig ferðamenn geta hvergi komið án þessa að vera rukkaðir ávallt um smá aura, heldur kaldhæðnislega. Upplifun ferðamannsins sé því að stanslaust sé verið að plokka af þeim fé. Steinar segir þetta dónaskap við ferðamenn og ofan á það geti þetta varla verið að skila meiri pening í kassan en það sem það kostar að hafa halda úti starfsmanni við að rukka.

Hér fyrir en neðan má lesa lýsingu Steinars af ferðaþjónustunni í dag, en hann birti hana á Facebook.

Það er ömurlegt að frelsi ferðalagsins sé núna nánast horfið víða. Það er og hefur verið besta markaðssetning Íslands. Það er óþarfi að krefja ríkið um meiri pening í markaðssetningu þegar við fólkinu sem þó kemur taka gjaldhlið út um allt land, jafnvel án allrar þjónustu. Gestrisnin er farin, af hverju þá að bjóða fólk velkomið dýrum dómi? Eitt það nýjasta er að ráðherra setti á gjaldtöku á malarstæðum við Jökulsárlón en ekkert hefur breyst, klósettmál eru í lamasessi.

Einnig standa nú hliðverðir frá Umhverfisstofnun og stöðva alla bíla rétt utan við Landmannalaugar og heimta bílastæðagjöld fyrir malarplanið. Svo kemur fólk inn á svæðið og þá skal borga Ferðafélaginu það sem því svo sannarlega ber fyrir að halda úti ágætri salernisaðstöðu. Auðvitað ruglar svona margföld gjaldtaka inn á sama svæðið fólk í ríminu og er lítt til þess fallin að gleðja það.

Ekki get ég ímyndað mér að það sé góð útgerð hjá Umhverfisstofnun að halda úti allt að þremur starfsmönnum til að rukka smábíla um 450 krónur. Ég á erfitt með að skilja tekju- og kostnaðarmódelið í því. Ég skil heldur ekki hvernig það gekk í gegn skipulags- eða leyfalega. Og allt var þetta gert nánast án fyrirvara eða kynningar. Dónaskapur stjórnvalda gagnvart ferðaþjónustunni er slíkur.

Gjaldskylduskilti eru komin út um allt og ferðamenn klóra sér í hausnum og þora eflaust oft ekki öðru en að borga. Oft er verið að fiska í gruggugu vatni. Skilti einfaldlega sett upp og treyst á guð og lukkuna, og Parka.

Við Gluggafoss er skilti núna innan við girðingu landeigenda. Við malarstæði sem hefur verið þar í áratugi og landeigendur aldrei haft kostnað af en sveitarfélagið þjónustað. Borð og bekkur við fossinn er merkt Katla Geopark og Evrópusambandinu! Þar tókst okkur að sníkja út styrk fyrir ómerkilegu viðarborði en Evrópubúarnir sem heimsækja okkur skulu borga fyrir að nota það.

Við Kirkjufell er rukkað á bílastæðinu. Hvergi innan Grundarfjarðarbæjar sjálfs er rukkað. Útlendingarnir, sem þó borga hæstu fasteignagjöldin í gegnum hótelgistingar sínar, skulu hundeltir og borga alls staðar sem þeir vilja stoppa í nokkrar mínútur. Samt þykjumst við vilja bjóða þá velkomna og að ríkið leggi milljarða í auglýsingaherferðir þess vegna.

Steininn tók svo út með ókurteisina og viðhorfið gagnvart ferðamönnum fyrir nokkrum dögum við Seljalandsfoss. Þá keyptu ferðamennirnir mínir sér ,,bjór“ í veitingaaðstöðunni þar og var þeim seldur pilsner. Ég benti þeim á það, margspurði hvort þau hefðu örugglega beðið um bjór, og fór með drykkina aftur til stúlknana sem seldu þeim meintan ,,bjór“ og krafðist skýringa. Þetta þótti nú auðvitað talsvert röfl í mér, þótti ekki tiltökumál og lítið til að kvarta yfir, og mér var sagt að pilsner væri nú það eina sem þau höfðu sem líktist bjór. Ég sagði að þau gætu nú ekki samt sem áður selt pilsner sem bjór ef beðið væri um bjór og að það væri ekkert nema svindl. Að lokum var endurgreitt.

Svona er þetta allt orðið. Ég held að á meðan svo er og á meðan stjórnvöld og ferðaþjónustuaðilar margir virða gesti okkar lítils sem einskis þá sé óþarfi að setja marga milljarða af skattpeningum í að reyna að lokka fólk hingað til lands þegar þessar móttökur bíða þess

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí