Reynt var að ráða Donald Trump af dögum á kosningafundi í bænum Butler í Pennsylvaníu í gærkvöldi (laugardag 13. júlí). Sjá má myndband af því hér:
Að því er virðist var 7 eða 8 skotum hleypt af, og eitt skotið hæfði Trump í eyrað, eins og sést á myndbandinu, en honum virðist ekki hafa orðið meint af, er sagður vera við „fína“ heilsu. Einn áhorfandi lést í skothríðinni, á meðan tveir aðrir voru alvarlega særðir. Árásarmaðurinn var drepinn á staðnum af öryggisþjónustunni.
Þetta er í fyrsta skiptið sem slíkt morðtilræði á sér stað gegn sitjandi eða fyrrverandi forseta í Bandaríkjunum frá því að Ronald Reagan var skotinn árið 1981.
Öryggisþjónusta Bandaríkjanna (United States Secret Service) gaf út eftirfarandi tilkynningu um atvikið:
Á kosningafundi Trump fyrrverandi forseta í Butler í Pennsylvaníu að kvöldi 13. júlí um kl. 18:15 skaut grunaður árásarmaður mörgum skotum í átt að sviðinu frá upphækkuðum stað fyrir utan svæði kosningafundarins. Starfsmenn bandarísku öryggisþjónustunnar tóku árásarmanninn úr umferð, sem er nú látinn. Bandaríska öryggisþjónustan brást fljótlega við og fyrrverandi forseti er öruggur og í læknisskoðun. Einn áhorfandi var drepinn, og tveir áhorfendur voru alvarlega særðir. Atvikið er nú undir rannsókn og öryggisþjónustan hefur formlega tilkynnt atvikið til alríkislögreglunnar.
Hér má sjá viðtal við vitni sem stóð við hliðina á áhorfandanum sem var drepinn í árásinni. Hann segist hafa heyrt 7 skot:
Atvikið átti sér stað kl. 18:12 á staðartíma (EDT), eða kl. 22:12 í gærkvöldi á íslenskum tíma. Árásarmaðurinn er sagður hafa hleypt af skotum á um 150 metra færi. Hér má sjá staðsetninguna á Google Maps:
Árásarmaðurinn
Árásarmaðurinn hefur verið nafngreindur sem hinn 20 ára gamli Thomas Matthew Crooks (fæddur 20. september 2003), frá Bethel Park, Pennsylvaníu, bæjarfélag sem er innan við klukkustundar akstursfjarlægð frá staðnum þar sem morðtilræðið átti sér stað. Crooks útkskrifaðist frá Bethel Park High School árið 2022 og hefur engan þekktan sakaferil.
Crooks var skráður í Repúblikanaflokkinn. En þegar hann var 17 ára hafði hann gefið 15 dollara framlag til frjálslyndu pólitísku samtakanna Progressive Turnout Project (í gegnum ActBlue, kosningaframtak Demókrataflokksins).
Myndir sem hafa verið birtar af líki Crooks sýna að hann var klæddur bol sem virðist vera merktur Demolition Ranch, en það er YouTube-rás fyrir áhugamenn um skotvopn.
Hér má sjá myndband sem var tekið af vettvangi úr þyrlu, og sýnir lík árásarmannsins á þaki byggingarinnar þaðan sem hann skaut á Trump, ásamt riffli sem liggur við hliðina á honum.
Öryggisþjónustan segir að skotvopnið sem hafi verið notað var AR-15 hálfsjálfvirkur riffill.
Á myndbandinu af atvikinu má greina að líklegast hafi lítið kalíber verið notað, nánar tiltekið 22 cal. Þetta mat er byggt á því hvað skothvellirnir sem heyrast í myndbandinu eru lágir (ekki mjög háværir), og að skotið hafi aðeins skaðað Trump lítillega á eyranu. Ef stærra kalíber hefði verið notað þá má búast við því að kúlan sem hæfði Trump hefði sært hann talsvert meira.
AR-15 riffillinn er til í útgáfum með kalíberið 22 cal. Því má búast við að riffillinn sem var notaður lítur nokkurn veginn svona út:
Kalíberið 22 cal. er eitt minnsta rifflakalíberið sem til er, og virkar ekki á mjög löngu færi. Það er yfirleitt notað til að veiða litla fugla eða kanínur á tiltölulega stuttu færi (undir 100 metrum). Ef færið er lengra en 150 metrar fer kúlan að missa kraft og er ekki lengur fær um að vera mjög nákvæm eða valda miklum skaða (svipað og högl úr haglabyssu á löngu færi). Þetta kann að skýra hvers vegna Trump var ekki meint af, ef árásarmaðurinn var að skjóta á hann með 22 cal. á um 150 metra (eða lengra) færi, sem er hámarksfæri fyrir þesskonar riffil.
Hinsvegar var áhorfandinn sem lést í einu skotinu staðsettur nær byssumanninum heldur en Trump, sem þýðir að hann var inni á „effective range“ riffilsins, á meðan Trump var staðsettur lengra í burtu, á hámarksfæri þar sem kúlan er ekki lengur eins nákvæm, kraftmikil eða banvæn.
Á þessari mynd sést hvar skotið hæfði Trump í hægra eyra:
Viðbót (15.07.2024)
USA Today hefur það eftir „special agent“ á vegum alríkislögreglunnar (FBI), að kalíberið sem var notað við morðtilræðið var 5.56×45mm NATO. En það er mjög svipað kalíber og .223 Remington, sem er örlítið stærra en 22 cal. en þó með talsvert öflugri púðurhleðslu.
Það sem segir í fréttinni hér fyrir ofan um 22 cal. var ágiskun höfundar áður en þessar upplýsingar komu í ljós.