Þjónustuskerðing heilsugæslustöðva í raun þægileg betrumbót segir Willum

Upp er niður, rautt er blátt og þjónustuskerðing heilsugæslustöðva er í raun bara aukin þægindi og mikil betrumbót. Svo öfugmælir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra um breytingu á þjónustu heilsugæslustöðva, sem áður höfðu síðdegisvakt opna fyrir almenningi en mun nú vera lokað.

Samstöðin fjallaði um málið, en í stuttu máli sagt er þjónustan þar sem áður var hægt að ganga að því vísu að fá læknisþjónustu í eftirmiðdeginu, ef eitthvað brátt kom upp á lögð niður hér með. Í stað hennar er kominn sími, númerið 1700, þar sem sjúklingum er flokkað eftir hversu bráð þeirra veikindi eða vandamál eru af hjúkrunarfræðingum. Aðeins það fólk með bráð tilfelli fær þjónustu samdægurs eða næsta dag. Aðrir þurfa bara að lifa með sínum kvillum og áhyggjum og treysta á að fá pantaðan tíma, en biðlistar eftir tímum hjá heimilislæknum eru í mörgum tilfellum margir mánuðir fram í tímann.

Þá berast líka fregnir af því að tvöfalda þyrfti fjölda heimilislækna til að anna fólksfjölgun, enda nær ómögulegt að finna sér heimilislækni í dag ef maður býr ekki að slíkum sem stendur.

En þetta er allt í lagi Guði sé lof. Willum Þór útskýrir að með þessari breytingu verði „þjónustan aðgengilegri og þægilegri“. Þetta voru viðbrögð hans við gagnrýni á breytingarnar. Eins gott að Willum var tilbúinn til að útskýra fyrir okkur sauðunum að augljós sannindi eru bara einhvers konar hugarburður.

Það væri auðvitað í fínasta lagi í fullkomnum heimi, eða látum okkur nægja að segja skárri heimi, að forflokka sjúklinga með þeim hætti sem hugað er að nú. Þ.e.a.s. ef það stæði til boða að bóka tíma hjá lækni með litlum biðtíma. En svo er ekki. Enda eru þessar breytingar aðeins liður í því að létta á álagi á heilbrigðiskerfi sem var holað að innan fyrir Hrunið, skorið inn að beini eftir Hrun og undir níðþungum áhrifum fólksfjölgunar vegna vaxtar ferðamannaiðnaðarins.

Willum segir breytingarnar samt af hinu góða, „það er auðvitað kjarninn í okkar stefnu að bæta aðgengi, auka það og jafna eftir atvikum“.

Það er kannski ekki skrítið að ríkisstjórnin sé ein sú óvinsælasta í Íslandssögunni miðað við aðstæður.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí