„Við jarðvísindamenn höfum stundum, svona í flimtingum okkar á milli, talað um að það séu svona þrír staðir á landinu þar sem við myndum ekki vilja eiga fasteign. Það væri Heimaey, Grindavík og Húsavík. Húsavík stendur á þekktu jarðskjálftasvæði, það eru stórar sprungur sem ganga í gegnum bæinn. Það er alveg klárt mál að Grindavík hefði getað gert betur, það er alls ekki í lagi að menn byggi yfir sprungur. Menn hafa reynt að forðast það eftir megni hérna í Reykjavík.“
Þetta sagði Ólafur Ingólfsson, prófessor í jarðfræði, í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í þætti kvöldsins. Ólafur mun fara yfir hættuna af því að senda ferðamenn inn í íshella um mitt sumar. En einnig mun hann útskýra hvernig fyrrnefnd þrjú bæjarfélög séu sennilega þau hættulegust á landinu. Í það minnsta jarðfræðilega séð.
„Varðandi Vestmannaeyjar, Heimaey er ung eldstöð. Þannig að það er ekki spurning um hvort heldur hvenær fer að gjósa. Það getur í raun gerst hvenær sem er, gæti orðið mjög langur tími. En það er svo margt við Heimaeyjagosið, ef gossprungan hefði opnast ekki nema 300 til 400 metrum vestar, kvikan er að koma úr 10 til 20 kílómetra dýpi. Það hefði ekki mátt miklu skeika og þá hefði eldgosið hafist inn í miðjum bæ.“
Viðtalið við Ólaf Ingólfsson má sjá og heyra við Rauða borðið í kvöld.