„Íslensk börn fá mjög lélega einkunn í forvitni, sem er vitsmunadygð, og samkennd og samvinnu, sem eru svona siðferðis- og borgaradyggðir. Þetta veldur mér miklum áhyggjum því ég hef mikið verið að skoða siðferðis- og tilfinningaþroska og tengsl hans við andleg heilbrigði og námsárangur. Mér finnst þetta enn þá meira aðkallandi en hvort við fáum lélega einkunn í læsi og svo framvegis.“
Þetta segir Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham, í viðtali við Rauða borðið. Pólitísk samstaða virðist vera um að pottur sé brotinn í íslensku grunnskólakerfi. Það sama verður varla sagt um hvað sé til ráða við vandanum.
Og hver er rót vandans? Kristján hefur sína kenningu um það. „Ég held að Ísland hafi tekið skilaboðunum frá OECD af meiri alvöru en mörg önnur lönd. Frá 1970 þá hefur OECD verið með mjög skýra stefnu í menntamálum, sem er kölluð mannauðskenningin um menntun, sem gengur út á að megin tilgangurinn sé að koma fólki til bjargálna, að efla efnahagslegt öryggi einstaklinga og efla þjóðarframleiðslu, og tekjur,“ segir Kristján og bætir við:
„Þetta eru hörð efnahagsleg gildi og allt annað sé bara aukageta. Hugmyndin var, til skamms tíma, að ef það er hægt að koma fótunum undir fólk efnahagslega, bæði sem einstaklingar og þjóðir, þá muni allt hitt veitast þeim að auki. Þá muni andleg heilbrigði batna, samkennd og samvinna. En ég held að þar sé verið að snúa við orsök og afleiðingu.“
Viðtalið við Kristján má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.