„Eitt sem gerðist, sem er mikilvægt að hafa í huga, er að grunnskólinn varð einsettur, áður þegar hann var tvísetinn, þá voru kennarar, sérstaklega karl kennarar á tvöföldum launum. Þeir kenndu sem sagt fyrir hádegi og eftir hádegi. Það var sem sagt tvöföld vinna. Á þeim tíma sjaldgæfara að konur væru í þeirri stöðu. Það sem gerist þegar skólinn er svo einsettur, þá verða launin miklu verri og þá sérstaklega fyrir karlanna.“
Þetta sagði Þórdís Sigurðardóttir, sem veitir Miðstöð menntunar og skólaþjónustu forstöðu, vera líklega helstu ástæðuna fyrir þeim mikla kynjahalla sem nú er meðal grunnskólakennara. Í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld segist hún taka undir með margri þeirri alvarlegu gagnrýni sem komið hefur fram á grunnskólakerfið. Þórdís auglýsir eftir samstillt átaki, enda varði miklu að snúa vörn í sókn.
„Ástæðan fyrir því að karlar héldust þó þetta lengi inn í kennarastéttinni var að það var hægt að fá góð laun með því að vera á tvöföldum launum. Svo fengu þeir sér oft vinnu á sumrin, fóru á sjó. Þannig að samfélagið okkar hefur bara breyst gífurlega mikið, en á sama tíma er þetta starf gífurlega erfitt. Og ég tala nú ekki um þegar við erum ekki að veita þann stuðning sem þarf.“
Viðtalið við Þórdísi má sjá og hlusta á í heild sinni við Rauða borðið í kvöld.