„Ég skil alveg pirringinn í félögum mínum, að þeim þyki fullreynt að þessi ríkisstjórn geri einhver kraftaverk á næstu mánuðum. Ég held bara, það er auðvitað leiðinlegt að vera svo jarðbundinn að segja að ég held að það sé ekki skynsamlegt að á síðustu metrum þessarar ríkisstjórnar að slíta þessu samstarfi.“
Þetta segir Hlynur Hallsson, einn helsti stuðningsmaður VG á Akureyri, en hann er ósammála þeim flokksfélögum hans sem vilja slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Hlynur mun ræða tillögu þess efnis við Rauða borðið í kvöld, en Halla Gunnarsdóttir hefur boðað tillögu á landsfundi VG, sem fer fram þar næstu helgi, um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi VG, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
„Ég held að það sé miklu skynsamlegra að halda bara áfram. Af því að Halla nefnir efnahagsmálin þá held ég að það sé að rofa til. Menn eru að tala um að stýrivextirnir verði lækkaðir, og ef ekki í október þá allavega í nóvember. Og verðbólgan er á niðurleið. Svo ég er á þeirri skoðun að það sé skynsamlegt að klára þetta samstarf og kjósa síðan annað hvort í vor eða næsta haust,“ segir Hlynur.
Hlynur mun nánar útskýra þessa afstöðu við Rauða borðið í kvöld.