„Tilfinningin mín hefur verið „vá þetta er að gerast í alvörunni“. Þessi tilfinning um að „já ég er ekki að fara í vinnuna í dag, þetta er bara skollið á“. Ég komst í gegnum svolítið af þvotti og hef verið finna mér eitthvað að gera. En þetta hafa verið frekar rólegir dagar.“
Svo lýsti Hulda Lovísa Ámundadóttir, deildarstjóri á Drafnarsteini, tilfinningunni að vera komin í verkfall í samtali við Rauða borðið. Nú þegar kennaraverkfall er skollið á af fullum þunga þá verður reynt að fylgjast með því í föstum liði, Verkfallsvaktinni. Ásamt Huldu kom Egill Helgason, einnig deildarstjóri á Drafnarsteini, að Rauða borðinu. Hann segir foreldra almennt sýna verkfallinu skilning.
„Foreldrar á Drafnarsteini hafa stutt okkur mjög vel en maður veit að þetta er óþægilegt og því á maður að fara varlega í það að einhver sé í fríi eða hafa gaman í verkfalli. En það er nóg að gera hjá okkur svo sem, við erum að fara að standa fyrir verkfallsvörslu. Ég hugsa að við förum saman að Drafnarsteini í fyrramálið, bara til að athuga hvort allt sé með felldu,“ segir Egill.
Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.